Fótbolti

Stjóri Kára hefur ekki mætt á æfingu tvo daga í röð

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Derek McInnes vill komast til Rangers.
Derek McInnes vill komast til Rangers. vísir/getty
Kári Árnason, landsliðsmaður í fótbolta, hefur ekki verið undir stjórn Skotans Derek McInnes, knattspyrnustjóra Aberdeen, á æfingum liðsins í gær og í dag en hann hefur ekki mætt á síðustu tvær æfingar.

McInnes er eftirsóttur af stórliði Rangers sem rak Portúgalann Pedro Caixinha á dögunum en McInnes er maðurinn sem Glasgow-liðið vill fá. Aberdeen hafnaði beiðni Rangers um að ræða við stjórann sinn á þriðjudaginn og það virðist hafa farið illa í McInnes.

McInnes hitti Stewart Milne, stjórnarformann Aberdeen, í gær, samkvæmt heimildum Sky Sports, og ræddi þar framtíð sína. Hann mætti þó ekki á æfingu í gær og ekki heldur í dag.

Nú er Aberdeen búið að gefa það út að McInnes mun ekki sitja fyrir svörum á vikulegum blaðamannafundi félagsins í dag heldur mun Paul Sheerin, stjóri U20 ára liðs Aberdeen, og Graeme Shinnie, fyrirliði liðsins, svara spurningum blaðamanna.

Auk McInnes mætti Tony Docherty, aðstoðarstjóri Aberdeen, ekki á æfingarnar en þeim var stýrt af Barry Robson, sem er einn af þjálfurum liðsins, og markvarðaþjálfaranum Gordon Marshall.

Aberdeen á leik á móti Dundee á föstudaginn en Rangers vann Aberdeen tvívegis á fimm daga kafla í deild og bikar á dögunum.

Rangers er í öðru sæti deidlarinnar með 30 stig en Aberdeen er sæti neðar með sama stigafjölda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×