Skoðun

„Dæmir sig sjálfur“

Skúli Magnússon skrifar
Leiðari ritstjóra Fréttablaðsins, Kristínar Þorsteinsdóttur sl. laugardag er helgaður erindi mínu á síðasta aðalfundi Dómarafélags Íslands. Þar gerði ég að umtalsefni ítrekaðan neikvæðan fréttaflutning blaðsins af málefnum dómara og dómstóla, meðal annars umfjöllun blaðsins um launamál dómara í ársbyrjun 2016. Í leiðaranum er vísað til þess að hvorki fjölmiðlanefnd né siðanefnd blaðamanna hafi fundið nokkuð að fréttaflutningi blaðsins og því sé engu líkara en undirritaður halli vísvitandi réttu máli. Þetta er talið ósæmandi formanni félags dómara.

Hinn 5. febrúar 2016 birti Fréttablaðið frétt um launamál dómara undir fyrirsögninni: „Laun hækkuðu um 38% í fyrra“. Í undirfyrirsögn sagði svo: „Eftirlaun dómara hækkuðu um alls 38% í fyrra með tveimur ákvörðunum kjararáðs. Meðalhækkun eftirlauna hjá ríkinu var 11,8%. Sanngjörn og eðlileg hækkun, segir formaður Dómarafélagsins.“ Um var að ræða fjórðu frétt blaðsins á þessum nótum frá áramótum og hafði þetta meðal annars leitt til þess að miðstjórn ASÍ samþykkti ályktun þar sem harðlega var mótmælt „meira en 40% hækkun á launum dómara“ og þess krafist að settir yrðu á hátekjuskattar til að stemma stigu við „ofurlaunum“. Sama dag ritaði ég aðstoðarritstjóra Fréttablaðsins tölvuskeyti þar sem ég kvartaði yfir því að enn á ný væri á síðum blaðsins fjallað með villandi hætti um launamál dómara og án þess að leitað væri viðbragða Dómarafélagsins eða annarra sem gætu varpað ljósi á málið. Óskaði ég eftir því að stutt athugasemd mín, sem fylgdi með bréfinu, yrði tafarlaust birt, en þar kom m.a. fram að raunhækkun launa dómara hefði verið um 6-7%.

Aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins svaraði erindi mínu samdægurs svona: „ Fyrirsögn fréttarinnar endaði fyrir mistök með þessum hætti. Það verður leiðrétting þess efnis í blaðinu á morgun.“ Fréttablaðið birti hins vegar enga leiðréttingu degi síðar heldur „áréttingu“ mánudaginn 8. febrúar. Í úrskurði siðanefndar blaðamanna 19. apríl 2016, vegna kæru minnar til nefndarinnar, var talið að þessi vinnubrögð hefðu ekki falið í sér brot á siðareglum blaðamanna. Fyrirsögnin hefði ekki verið röng en hefði mátt vera nákvæmari. Þá hefði Fréttablaðið uppfyllt leiðréttingarkvöð siðareglna. Var þar vísað til þess að leiðréttingu minni hafði verið komið fyrir á vefnum visir.is enda þótt blaðið hefði hafnað því að birta hana á síðum blaðsins.

Hver og einn getur lagt sitt mat á niðurstöðu siðanefndar blaðamanna en að henni vék ég ekki í fyrrnefndu erindi mínu á aðalfundi dómarafélagsins. Í erindi mínu sagði ég hins vegar að téðum fréttaflutningi blaðsins hefði ekki linnt fyrr en eftir kæru til siðanefndarinnar. Sú staðhæfing er rétt og því var hér ekki hallað réttu máli. Fullyrðing ritstjórans um að nefndin hafi ekki fundið nokkuð að fréttinni er einnig augljóslega röng og samræmist ekki einu sinni viðbrögðum blaðsins sjálfs. Andstætt ritstjóra Fréttablaðsins ætla ég hins vegar ekki að væna hana um að málflutningur af þessu tagi sé henni eða blaðinu ekki sæmandi.



Athugasemd ritstjóra: Á þessum skrifum sannast að enginn er dómari í eigin sök. Ekkert var rangt í umræddum leiðara Fréttablaðsins. Skúla Magnússyni láðist að geta þess í ræðu sinni á aðalfundi Dómarafélags Íslands, að umkvartanir hans fengu engar undirtektir hvorki hjá siðanefnd Blaðamannafélags Íslands né fjölmiðlanefnd. Fjölmiðlanefnd kvað upp úr með að ágreiningslaust væri að grunnlaun og þar með eftirlaun dómara hefðu hækkað um 38% með tveimur úrskurðum kjararáðs í nóvember og desember 2015. Skýrara getur það ekki verið.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×