Innlent

Náðist loks í skottið á Abú á Laufásveginum

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Abú heima í faðmi Heiðdísar Snorradóttur eftir óvænta sex vikna útlegð.
Abú heima í faðmi Heiðdísar Snorradóttur eftir óvænta sex vikna útlegð.
„Hann fékk auðvitað smá rjómablöndu þegar hann kom heim, minna mátti það nú ekki vera,“ segir Heiðdís Snorradóttir sem á þriðjudag endurheimti köttinn Abú sem gerst hafði laumufarþegi með bíl nágranna og horfið.

Fréttablaðið sagði frá ferðum Abús fyrir mánuði. Þá hafði hann rúmri viku fyrr laumað sér í bíl nágranna Heiðdísar í Breiðholti, stokkið úr honum við Heklu á Laugavegi og horfið í átt að Hlemmi. Heiðdís hefur leitað hans mikið síðan.

Á þriðjudag segist Heiðdís hafa frétt af innleggi á Facebook-síðu fyrir týnd og fundin dýr. „Blasti við mér mynd af kisu sem ég hafði ekki séð lengi. Ég fékk sting í magann því ég kannaðist við andlitið, greinilega hvítur nebbi og hálskragi,“ segir Heiðdís. Í tilkynningunni hafi komið fram að kötturinn hefði þá haldið sig utan við íbúð á Laufásvegi í þrjá daga. „Hann var um þrjá kílómetra frá þeim stað þar sem hann týndist upprunalega en mjööög langt frá heimili sínu og var greinilega rammvilltur.“

Heiðdís segir að þeim sem sá til Abús hafi sýnst kötturinn vera týndur miðað við hversu þurfandi hann var. „Hann var með hann innandyra svo hann gat passað hann fyrir okkur þar til við gætum sótt hann. Ég hafði auðvitað samband við hann og fékk myndir til baka og þá frekari staðfestingu um að Abú væri í raun fundinn.“

Að sögn Heiðdísar var Abú í ótrúlega góðu ásigkomulagi er hann kom heim. „Hann var bara spengilegur og grannur en alls ekki illa haldinn. Hann var dauðþreyttur og virtist ekkert vera meiddur eða lasinn. Við höldum að hann hafi í raun bara flakkað á milli heimila og verið að betla mat,“ segir Heiðdís.

Abú á systurina Jasmín sem einnig býr hjá Heiðdísi og unnusta hennar. Systkinin fundust saman fimm vikna gömul í pappakassa á víðavangi í Borgarnesi fyrir fimm árum. „Systir hans elti hann út um alla íbúð með nefið ofan í honum, eins og til að spyrja á kattamáli: Hvar hefur þú verið allan þennan tíma? Ég saknaði þín.“

Mikil ánægja er því á heimilinu með heimkomu ævintýrakattarins Abús. „Maður kemst að því hvað maður elskar þessa loðbolta mikið þegar þeir týnast svona í lengri tíma. Þrautseigari ketti hef ég vart kynnst, en núna tekur við innitímabil hjá honum þar sem hann lærir að umgangast okkur aftur og lærir aftur sína daglegu rútínu.“ 


Tengdar fréttir

Laumufarþeginn Abú sást stefna á Hlemm

"Hann er svolítið forvitinn en þetta hefur aldrei gerst áður,“ segir Heiðdís Snorradóttir, eigandi kattarins Abú, sem hvarf nýlega á ævintýralegan hátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×