Innlent

Aldrei meiri úrgangur borist til endurvinnslustöðva

Lovísa Arnardóttir skrifar
Hér má sjá dæmi um það sem finnst í endurvinnslugámum Sorpu, áður en það er sent til Góða hirðisins.
Hér má sjá dæmi um það sem finnst í endurvinnslugámum Sorpu, áður en það er sent til Góða hirðisins. vísir/eyþór
„Við vitum alveg að við getum selt geisladiska og DVD-myndir og við seljum bækur, en magnið sem berst í Góða hirðinn er langt umfram sölugetu okkur og eftirspurn,“ segir Ragna Ingibjörg Halldórsdóttir, deildarstjóri umhverfis- og fræðsludeildar Sorpu. Vikulega berast Góða hirðinum 25 gámar fullir af nytjahlutum. Af hverjum fimm, sem berast daglega, þarf að senda tvo til baka í förgun eða endurvinnslu.

Ragna Ingibjörg Halldórsdóttir, deildarstjóri umhverfis- og fræðsludeildar Sorpu.vísir/stefán
Samkvæmt Sorpu er þetta að nokkru leyti vegna breyttrar hegðunar neytenda, en einnig má gera ráð fyrir að velmegun og aukinn kaupmáttur ýti undir neyslu. Ragna segir einig fleiri þætti, eins og tilkomu Costco, hafa áhrif. 

„Svo eru rafrænir miðlar og fólk er farið að lesa minna bækur. Það notar Spot­ify eða aðra miðla til að hlusta á tónlist. Umhverfi okkar hefur breyst þó nokkuð,“ segir Ragna. Hún telur einnig að sölusíður eins og Bland og söluhópar á Facebook hafi áhrif. „Ef það hefur ekki selst eftir x langan tíma á þessum miðlum, og fólk losnar ekki við það með þessum hætti, þá er niðurstaðan að gefa það í Góða hirðinn.“

Samkvæmt frétt á heimasíðu Sorpu er bæði verslunin og umferð um einstakar endurvinnslustöðvar komin að þolmörkum og er Góði hirðirinn því hættur að geta tekið við öllum nothæfum hlutum sem berast í nytjagámana á endurvinnslustöðvunum. Til að bregðast við þessu hafa starfsmenn Góða hirðisins til dæmis verið sendir á stærstu endurvinnslustöðvarnar um helgar. Það eru stöðvarnar sem eru á Sævarhöfða, í Ánanaustum og á Dalvegi. Þar leiðbeina þeir fólki um hvað eigi heima í nytjagámunum og hvað ekki. Með þessu móti hefur náðst að minnka það magn sem kemur til búðarinnar og ekki er hægt að selja. En það getur fylgt því mikill kostnaður að senda hluti aftur til annaðhvort förgunar eða endurvinnslu.

Ragna segir markaðinn endurspegla vel ástandið í þjóðfélaginu hverju sinni. „Þetta breytist frá ári til árs. Núna höfum við séð svolítið af rúmum og rúmdýnum. En þetta fer svolítið eftir því hvað er í gangi í þjóðfélaginu. Svo hafa verið að koma skjáir þegar fólk hefur verið að nýta sér tilboðin á „Black Friday“ og þess háttar dögum. Það kemur svolítið í gegnum markaðinn [Góða hirðinn, innsk. blaðamanns] hvað er í gangi í þjóðfélaginu.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×