Innlent

Íbúi í Hlíðunum handsamaði innbrotsþjóf

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það var hamagangur í Hlíðunum í nótt.
Það var hamagangur í Hlíðunum í nótt. Vísir/Getty
Einstaklingur var handtekinn í Hlíðahverfi Reykjavíkur í nótt vegna gruns um innbrot. Íbúi hafði komið að ræningjanum og tekist að halda honum föstum þangað til lögreglan mætti á vettvang. Maðurinn var handtekinn og gistir nú fangageymslur.

Lögreglan þurfti að sama skapi að bregðast við þremur umferðaróhöppum á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Fyrsta óhappið var rétt fyrir miðnætti en þá var ekið á mannlausa bifreið í Hólahverfinu í Breiðholti og ekið á brott. Lögreglan telur sig vita hver hinn meinti tjónvaldur er.

Skömmu síðar, eða klukkan 00:02, var ekið á bifreið í Skeifunni sem skemmdist nokkuð í árekstrinum. Tjónvaldur forðaði sér af vettvangi eftir óhappið en lögreglan segist hafa hugmynd um hver þar hafi verið á ferðinni.

Þriðja og síðasta óhappið varð í Hafnarfirði á öðrum tímanum í nótt. Þar var bifreið ekið í veg fyrir aðra bifreið á gatnamótum. Einn var fluttur af lögreglu á slysadeild. Meiðsl hans eru sögð minniháttar.

Alls komu 20 mál inn á borð lögreglunnar í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×