Innlent

Skammarlegt að í kerfi sem á að vernda þolendur þrífist ofbeldi

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Femínistafélagið Auður tekur skýra afstöðu.
Femínistafélagið Auður tekur skýra afstöðu. Vísir/GVA
Meðlmir femínistafélagsins Auðar, nýstofnaðs femínistafélags stúdenta við lagadeild HÍ krefjast breytinga á viðhorfum og hegðun innan lögfræðingastéttarinnar, réttarvörslukerfisins og lagadeildar HÍ.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá félaginu sem telur 116 nemendur við deildina, konur og karla.

156 konur í réttarvörslukerfinu rufu í gær þögnina og sögðu frá kynferðislegri áreitni, ofbeldi og kvenfyrirlitningu innan réttarvörslukerfisins.

Sjá einnig: Þögnin rofin: Konur úr réttarvörslukerfinu segja frá ofbeldi, áreiti, niðurlægingu og smánun

„Þetta er kerfi sem mörg okkar stefna á að starfa í að námi loknu, en ljóst er að margt þarf að breytast svo vinnuumhverfið hljómi spennandi í hugum ungra femínískra lögfræðinga,“ segir í yfirlýsingu Auðar.

Þar segir einnig að félagið standi með þeim konum í réttarvörslukerfinu sem stigu fram og sögðu frá ofbeldi og áreitni sem þær hafa orðið fyrir í starfi.

„Við tökum undir orð þeirra um að vinna gegn kynbundnu ofbeldi og áreitni verði að vera sett í forgang og að allir vinnuveitendur þurfi að axla ábyrgð á að uppræta vandamálið.

Kynbundið ofbeldi, áreitni og mismunun er staðreynd í þessari stétt eins og öðrum stéttum samfélagsins. Meðlimir femínistafélagsins Auðar vita þó að mörkin eru skýr og það á fólk sem vinnur í kerfinu einnig að vita. Það er því skammarlegt að í kerfi sem meðal annars á að sjá um að vernda þolendur ofbeldis þrífist ofbeldi, áreitni og mismunun. Við krefjumst þess að breytingar verði hér á.“

Meðlimir félagsins undra sig einnig á því að þrátt fyrir að konum sem stunda nám við lagadeild HÍ hafi farið fjölgandi og að þær séu nú í meirihluta upplifi þær deildina oft karllæga í viðhorfum. Þessu þurfi að breyta.

„Femínistafélagið Auður tekur skýra afstöðu. Kynbundið ofbeldi, áreitni og mismunun á ekki að líðast. Breytum þessu svo það verði ekki fráhrindandi fyrir nýútskrifaða lögfræðinga sem langar að vinna af hugsjón í réttarvörslukerfinu að stíga þar inn.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×