Innlent

„Þetta var „staðurinn“ og hjartað í útgerðinni í landi“

Atli Ísleifsson skrifar
Húsnæði skipaþjónustu Hraðfrystihússins Gunnvarar stendur við Árnagötu 3 við Ísafjarðarhöfn.
Húsnæði skipaþjónustu Hraðfrystihússins Gunnvarar stendur við Árnagötu 3 við Ísafjarðarhöfn. GÍSLI HALLDÓR HALLDÓRSSON
„Húsið er náttúrulega ónýtt,“ segir Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins Gunnvarar, en húsnæði skipaþjónustu fyrirtækisins við Árnagötu 3 við Ísafjarðarhöfn varð eldi að bráð í nótt.

Einar Valur segir starfsmenn hafa nýtt húsnæðið sem aðstöðu til að þjónusta skip fyrirtækisins. „Þarna voru vélar, varahlutir, veiðarfæri og verkfæri til allra hluta. Þetta var „staðurinn“ og hjartað í útgerðinni í landi. Þetta var punkturinn þar sem búið var að safna öllu saman áður en skipin komu.“

Einar Valur segir að starfsmenn séu ekki búnir að meta tjónið á þessari stundu. „Við verðum nú að fara í að finna og koma okkur upp annarri aðstöðu. Byggja okkur upp aftur. Við erum með menn í vinnu svo við verðum að finna okkur annað hús sem fyrst.“

Hann segir að það hafi fyrst og fremst verið verkfæri og varahlutir sem hafi farið í eldinum. Einnig hafi tveir bílar eyðilagst og einn eða tveir lyftarar. „Við höfum ekki aðgang að svæðinu sem stendur. Lögreglan er enn að rannsaka vettvanginn.“

Einar Valur segir að starfsmenn fyrirtækisins hafi verið með honum á svæðinu eftir að eldurinn kom upp. „Þetta var ekki skemmtilegt en menn voru bara að vinna sína vinnu, aðstoða slökkviliðið og annað. Það er eins og það er. Þetta eru ekki krakkar. Þetta eru reyndir menn.“


Tengdar fréttir

Eldsvoði á höfninni á Ísafirði

Allt tiltækt lið slökkviliðsins á Ísafirði var kallað út rétt eftir klukkan 11 í kvöld vegna eldsvoða á Ísafjarðarhöfn.

Slökkvistarfi að ljúka á Ísafirði

Nokkrir slökkviliðsmenn eru eftir við húsnæði skipaþjónustu HG þar sem þeir vinna að því að slökkva í glæðum og vakta svæðið til að koma í veg fyrir að eldur gjósi þar upp á ný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×