Fótbolti

Forseti Real Madrid hvetur Neymar til að ganga til liðs við félagið

Magnús Ellert Bjarnason skrifar
Neymar umkringdur liðsmönnum Real Madrid, stuttu áður en að hann gekk til liðs við PSG.
Neymar umkringdur liðsmönnum Real Madrid, stuttu áður en að hann gekk til liðs við PSG. Getty Images // Vísir
Sagan endalausa um Neymar og Real virðist ætla að halda áfram, þrátt fyrir að PSG hafi í sumar gert Neymar að dýrasta leikmanni heims.

Florentino Perez, forseti Real Madrid, gaf til kynna í viðtali hjá spænskri útvarpsstöð í vikunni að eina leiðin fyrir Neymar til þess að vinna Ballon d'Or verðlaunin fyrir að vera besti fótboltamaður heims væri að ganga til liðs við Real Madrid.

„Það er engin spurning að það væri auðveldara fyrir Neymar að vinna Ballon d'Or í treyju Real Madrid. Real Madrid er félag sem gefur stórstjörnum á borð við Neymar allt sem þeir þurfa til að ná árangri. Það vita allir að ég hef nokkrum sinnum reynt að fá hann til liðs við Real Madrid, en því miður hefur það ekki gengið enn.“

Neymar endaði í þriðja sæti í kosningunni um besta leikmann heims, á eftir Messi og Ronaldo, sem vann sín fimmtu Ballon D'or verðlaun á dögunum.

10 ár eru síðan að annar leikmaður en Messi og Ronaldo vann þessi verðlaun, en brasilíumaðurinn Kaka vann verðlaunin árið 2007 þegar hann var leikmaður AC Milan. 

Það hefur verið mikið gert úr meintri óanægju Neymar í Parísarborg og hafa verið orðrómar um að hann og Edison Cavani eigi ekki skap saman.

Neymar hefur hins vegar blásið á þessa orðróma og segist vera hæstánægður í Parísarborg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×