Enski boltinn

Rio: Zlatan ástæðan fyrir markaþurrð Lukaku

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Rio í leik með Man. Utd.
Rio í leik með Man. Utd. vísir/getty
Endurkoma Zlatan Ibrahimovic í lið Manchester United er að valda Romelu Lukaku vandræðum segir Rio Ferdinand, fyrrum varnarmaður United.

Lukaku var keyptur frá Everton fyrir 75 milljónir punda í sumar og byrjaði hann feril sinn hjá United glæsilega, skoraði 11 mörk í fyrstu 10 leikjum sínum. Nú hefur hins vegar hægst á framherjanum og hefur hann aðeins náð einu marki í síðustu 11 leikjum.

„Stærsta vandamálið fyrir hann er að Zlatan Ibrahimovic er þarna. Að vita af stórum framherja sem er fyrir aftan þig í goggunarröðinni og vill spila, það setur pressu á þig sem sumum finnst erfitt að eiga við,“ sagði Ferdinand, en hann er sparkspekingur fyrir bresku sjónvarpsstöðina BT Sport.

Endurkoma Svíans til United olli miklum umræðum um einmitt þessar afleiðingar, hvort hann og Lukaku myndu passa vel saman. Ferdinand virðist sannfærður um að það sé raunin, en annar fyrrum leikmaður United, Ryan Giggs, er ekki sammála.

Hann segir Ibrahimovic ekki ógna Lukaku, heldur geti hann hjálpað Belganum með því að smita sjálfstrausti sínu yfir á hann.

Giggs sagði það þó mikilvægt fyrir Lukaku að stíga upp í næstu tveimur leikjum United, gegn Arsenal og Manchester City.

„Hann var keyptur til þess að skora mörk í leikjunum sem United var að fá jafntefli í á síðustu leiktíð. En, það er í þessum stóru leikjum sem liðið þarf mest á honum að halda.“

Belginn fór illa með gott marktækifæri í 4-2 sigrinum á Watford á þriðjudaginn, þar sem hann hafði opið markið fyrir framan sig, en tókst ekki að koma skoti á markið.

Eftir leikinn sagði Jose Mourinho, knattspyrnustjóri United, að hann hefði fulla trú á Lukaku og hefði ekki áhyggjur af því að mörkin kæmu ekki svo lengi sem hann héldi áfram að vinna vel fyrir liðið.


Tengdar fréttir

Lukaku fer ekki í leikbann

Aganefnd enska knattspyrnusambandsins ætlar ekki að aðhafast frekar í máli framherja Man. Utd, Romelu Lukaku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×