Handbolti

Daníel: Hugsaði bara um að skora

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Daníel Ingi var hetja ÍR í kvöld.
Daníel Ingi var hetja ÍR í kvöld. vísir/ernir
Daníel Ingi Guðmundsson, leikmaður ÍR, tók vítakastið sem réði úrslitum í háspennuleik ÍR og Hauka.

Aðeins sjö sekúndur voru eftir á klukkunni þegar vítakastið var dæmt og sagði Daníel að spennustigið hafði bara verið nokkuð gott miðað við aðstæður.

„Eina sem ég hugsaði þegar ég fór á punktinn var að ég yrði bara að skora,“ sagði Daníel en fimm sekúndur voru þó enn eftir fyrir Hauka til að jafna metin.

„Ég var að vonast til að leiktíminn væri búinn þegar vítið var dæmt. Pínu óþægilegt að fá þessar fimm sekúndur þarna í restina en tilfinningin er mjög góð núna.“

Eftirlitsmaður gerði einhver mistök fyrir lokasókn Hauka og stóð skyndilega að staðan væri 0-0 upp á töflunni og leiktíminn horfinn. Áhorfendur sem og leikmenn urðu því að bíða í dágóða stund eftir loka sókninni.

„Biðin var rosalega löng maður. Það var núll-núll á töflunni og maður vissi ekki neitt. Ég var bara bakvið bekkinn í felum,“ sagði Daníel og hló.

Þetta var fyrsti sigur ÍR í deildinni í síðustu þremur leikjum en liðið sýndi gífurlega elju og baráttu í kvöld. En hvað kom til að liðið sýndi jafn góðan leik og raun bar vitni?

„Vorum mjög ósáttir með síðasta leikinn okkar gegn Aftureldingu þannig við vildum bara sýna fólkinu okkar að við erum miklu betur en þetta.“

Og þeir gerðu það svo sannarlega. Lokatölur 24-23, ÍR í vil.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×