Innlent

Siglufjarðarvegur lokaður vegna snjóflóðs

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá Siglufirði.
Frá Siglufirði. vísir/auðunn
Uppfært klukkan 18:20: Siglufjarðarvegur verður lokaður í kvöld og nótt að minnsta kosti vegna snjóflóða sem fallið hafa á veginn.

Siglufjarðarvegi hefur verið lokað um óákveðinn tíma vegna snjóflóðs sem féll þar síðdegis í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni. Víglundur Rúnar Pétursson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar, segir í samtali við vef RÚV að flóðið sé nokkuð stórt og að það loki veginum alveg. Bílar hafi verið beggja megin flóðsins en ekki er vitað um slys á fólki eða skemmdir á ökutækjum.  

Þá er búið að opna Biskupstungnabraut á Suðurlandi á ný en veginum var lokað vegna umferðarslyss sem varð þar fyrir hádegi í dag.

Nú síðdegis er því spáð að veður muni versna til muna norðanlands sem og á norðanverðum Vestfjörðum. Í tilkynningu Vegagerðarinnar segir að reikna megi með 15 til 20 metrum á sekúndu með ofankomu og skafrenningi. Það geti því orðið mjög blint við þessar aðstæður sem og á láglendi.

 

„Þó ekki snjói á sunnanverðum Vestfjörðum verður þar skafrenningur sem og á  Snæfellsnesi og í Borgarfirði.  Jaðar hríðarbakkans er skarpur. Honum er spáð við  Tjörnes. Þar fyrir austan helst veður skaplegt,“ segir á vef Vegagerðarinnar.

Færð og aðstæður á vegum eru annars þessar:

Það er hálka eða hálkublettir á flestum vegum á Suðurlandi.

Hálka er á flestum leiðum á Vesturlandi og eitthvað um skafrenning. Flughálka er á Útnessvegi.

Á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja og éljagangur og skafrenningur á flestum leiðum. Þæfingur er á Hrafnseyrarheiði en Dynjandisheiði ófær eins er ófært úr Bjarnarfirði og norður í Gjögur.

Vetrarfærð er á Norðurlandi, snjóþekja eða hálka víðast hvar. Éljagangur eða snjókoma mjög víða. Þæfingsfærð er á Dettifossvegi.

Á Austur- og Suðausturlandi er víða hálka eða snjóþekja en greiðfært frá Norðfirði suður að Höfn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×