Innlent

Kynbundin og kynferðisleg áreitni á vinnumarkaði: „Við vitum voðalega lítið um stöðuna“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasamband Íslands.
Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasamband Íslands. Vísir/GVA
„Ég held að í lang flestum tilfellum er það þolandinn sem þarf að taka skellinn eða hætta,“ segir Drífa Snædal framkvæmdastjóri Starfsgreinasamband Íslands í samtali við Vísi. Í næstu viku heldur Drífa erindi um kynbundna og kynferðislega áreitni á vinnumarkaðinum og kynbundin launamun. Erindið er hluti af dagskránni hjá 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi, sem fer af stað á laugardag.

Um er að ræða alþjóðlegt átak sem felst í að draga kynbundið ofbeldi fram í dagsljósið sem mannréttindabrot. Upphafsdagurinn 25. nóvember er alþjóðlegur baráttudagur gegn ofbeldi gegn konum. Lokadagurinn 10. desember er alþjóðlegi mannréttindadagurinn. Dagsetningarnar tengja saman á táknrænan hátt ofbeldi og mannréttindi.

Skylda að vera með áætlun

„Við höfum séð hjá stéttarfélögum að þegar svona mál koma inn á borð til okkar að þá er í rauninni fokið í flest skjól. Þannig að það sem þarf að gerast er að vinnustaðir bregðist skjótar við, gefi skýr skilaboð um að þetta verði ekki liðið, hvert á að beina sér ef þú hefur orði fyrir áreitni sjálf eða orðið vitni af því, og ferli fer þá í gang.“

Að hennar mati vinnustaðir á Íslandi almennt ekki með tilbúna viðbragðsáætlun sem fer í gang þegar upp koma mál varðandi kynbundið ofbeldi á vinnustaðnum.

„Í reglugerð sem var gefin út árið 2015,  þá eiga vinnustaðir að vera með svona öryggisáætlanir. Og öryggisáætlunin á að fela í sér forvarnir og vernd gegn ofbeldi og áreitni. Þannig að það er beinlínis skylda atvinnurekenda að vera með svona áætlanir.“

Starfsgreinasambandið er með eigin viðbragðsáætlanir, sem er hluti af því ferli að vera betur í stakk búin til þess að leiðbeina vinnustöðum og starfsfólki þegar svona mál koma upp.

Alþýðusamband Íslands, Bandalag Háskólamanna, BSRB og Kennarasamband Íslands kölluðu í dag eftir því að atvinnurekendur og stjórnvöld axli ábyrgð og stórefli aðgerðir til að útrýma kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.Vísir/Getty
Þjónninn er ekki á matseðlinum

„Almennt er þetta á byrjunarstigi á Íslandi,“ segir Drífa sem telur að við séum á eftir öðrum Norðurlöndum í þessum málum. Hún segir áreitni og kynbundið ofbeldi sé verra í þjónustugeiranum en í öðrum starfsstéttum.

„Við gerðum könnun árið 2015 vegna fólks í þjónustugeiranum og þá kemur í ljós að það er víða pottur brotinn, sérstaklega þar. Það hefur verið skilgreint að fólk í þeim stéttum er sérstaklega berskjaldað því að þar er óreglulegur vinnutími og áfengi um hönd og fleira,“ segir Drífa.

Drífa fær inn á borð hjá sér mál tengd áreitni gegn bæði konum og körlum. „Það eru dæmi um bæði en hins vegar sýna okkar kannanir það að konur fara verr út úr því. Þegar konur verða fyrir áreiti er það frekar þannig að öryggi þeirra sem stendur ógn af því. Þannig að þetta er kynbundið, hvaða áhrif þetta hefur.“

Á fimmtudag fer af stað átak á öllum Norðurlöndunum sem ber heitið: „Við erum ekki á matseðlinum.“ Starfsgreinasambandið tekur þátt í þessu en farið er af stað með þetta átak vegna jólahátíðarinnar með tilheyrandi jólahlaðborðum. „Þó að fólk sé í þjónustuhlutverki þá ber að virða mörkin.“

Vinnuveitendur axli ábyrgð

Hún segir að það hafi komið á óvart hversu lítið til er að rannsóknum á þessu hér á landi.

„Við vitum voðalega lítið um stöðuna á vinnumarkaði. Það sem mig hefur oft dreymt um er að skoða tengsl kynferðislegrar áreitni á vinnustöðum og launamun kynjanna. Hvaða áhrif þetta raunverulega hefur á stöðu fólks á vinnumarkaði, þegar það verður fyrir áreitni eða ofbeldi á vinnustöðum. Hvort það komi niður á framfærslumöguleikum, hvort það komi niður á stöðuveitingum og svo framvegis. Það vantar rannsóknir, og mætti gera betur í rannsóknum á vinnumarkaði yfir höfuð. Ég held að umræðan núna hjálpi mjög mikið til. Bæði að vinnustaðir og vinnuveitendur fara að axla þá ábyrgð sem þeir eiga að taka og eins að við förum að leita aukinnar þekkingar.“

Drífa segist fagna fréttum um að rannsaka eigi valdaójafnvægi og kynferðisofbeldi innan leiklistarinnar hér á landi og telur að almennt sé tilefni til þess að rannsaka þetta víðar í samfélaginu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×