Skoðun

Elsku Ragnar

Þorsteinn V. Einarsson skrifar
Nú hefur loksins komið upp á yfirborðið það áreiti, niðurlæging og ofbeldi sem konur eru beittar. Og ég er í algjöru áfalli. En ekki Ragnar. Reyndar, eins og lesa má af Facebook, þá virðist Ragnar vera í áfalli, en bara yfir öðru en ætla mætti. Ragnar nefnilega skilur augljóslega ekki hvað þrjúhundruð stjórnmálakonur voru að segja í Kastljósi gærkvöldsins (21. nóv, 2018).

Ragnar erum við allir. Karlmenn. Strákar. Við skiljum ekki, en við reynum að gera það með því t.d. að láta hlutina ekki snúast um okkur sjálfa. Okkar gagnkynhneigða karllæga sjónarhorn á lífið er nefnilega ekki eina gilda sjónarhornið. Ég ætla ekki að reyna að útskýra fyrir Ragnari eitthvað sem hann skilur ekki. Ef það hins vegar vottar fyrir skynsemi hjá okkar manni þá reikna ég með að hann muni sjá hlutina í öðru ljósi í dag. Trúi ekki öðru eftir að #ekkiveraragnar trendaði.

Fyrir ekki svo löngu kom það nefnilega fyrir mig að sjá óvart hlutina í öðru ljósi en þessu gagnkynheigða karllæga. Óvart og mjög skyndilega var ég vakinn upp. Allt í einu sá ég og skildi (að einhverju takmörkuðu leiti) um hvað jafnrétti og femínismi snýst þegar ég steig harkalega inn í bleika boxið í lífinu með því einu að naglalakka mig.

Sem síðan leiddi mig í ótrúlega vegferð sem enn sér ekki fyrir endann á. Stundum óttast ég samt að vera ennþá tvítugi strákurinn sem skrifaði þetta á bloggið sitt í fullri alvöru undir fyrirsögninni JAFNRÉTTISKJAFTÆÐI fyrir tæpum 12 árum:

Ó, hve mikið ég skammaðist mín þegar góðu vinur minn sendi mér þetta skjáskot af gamla blogginu mínu. „Ef það fer ekki einhver að stoppa þessa jafnréttisbaráttu kvennanna mega karlar fara að passa sig… Það líður ekki á löngu þar til karlar verða ekki karlar, heldur vinnukarlar“. Þetta viðhorf, þessi lífssýn er svo fjarri mínum gildum og skoðunum í dag. Eftir að ég hafði skammast mín verulega og hugsað hvort að ég gæti ekki delete-að þessari fortíð minni svo hún myndi aldrei líta dagsins ljós, var mér bent á að þetta gæti nýst í umræðunni. Af því að við komum flestir þaðan. Ef við erum ekki staddir þarna nú þegar.

Í morgun var ég ekki viss hvort ég ætti að skrifa þessar hugleiðingar, af því að nú þegar hefur karlmaður tekið yfir sviðsljós kvennanna þrjúhundruð sem stigu fram og krefjast ábyrgðar karlmanna. En akkúrat út af því að kallað er eftir ábyrgð karla þá finnst mér ég þurfa að deila því með Ragnari að ég er alveg eins. Innst inni. Innst inni er ég bara lítill hræddur blístrandi smástrákur í myrkrinu, óupplýstur og algjörlega blindaður á eigin forréttindastöðu í lífinu. Misskil og er misskilinn.

Elsku Ragnar. Þú ert ekki einn. Við erum flestir fávitar en erum margir tilbúnir að horfast í augu við það og reyna að breytast. Endilega vertu með okkur. Taktu ábyrgð.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×