Innlent

Missti meðvitund og tennur eftir hrottalega árás innbrotsþjófa í Kópavogi

Gissur Sigurðsson skrifar
Maðurinn var á slysadeild í nótt en hefur verið útskrifaður.
Maðurinn var á slysadeild í nótt en hefur verið útskrifaður. Vísir/Daníel
Þrír innbrotsþjófar frömdu fólskulega líkamsárás í heimahúsi við Melgerði í Kópavogi laust fyrir miðnætti, þegar húsráðandi varð þeirra var og ætlaði að stugga við þeim. Húsráðandi, karlmaður á sjötugsaldri, missti meðvitund, skarst á höfði, er allur marinn og blár og missti nokkrar tennur.

Maðurinn rankaði við sér úti á tröppum fyrir utan húsið. Hann þekkir árásarmennina ekki og virðist árásin því hafa verið tilefnislaus að sögn Gunnars Hilmarsson, aðalvarðstjóra hjá lögreglunni í Kópavogi.

Nágrannar mannsins urðu varir við að eitthvað alvarlegt var að gerast og kölluðu á lögreglu. Lögreglumenn mættu á vettvang rétt í þann mund þegar árásarmenn voru að flýja vettvang. Voru allir þrír handteknir, blóðugir og með þýfi á sér frá manninum. Eru þeir vistaðir í fangageymslum.

Þeir hafa allir komist áður í kast við lögin og ræðst i dag hvort krafist verður gæsluvarðhaldsúrskurðar yfir þeim öllum.  Rétt áður en til þessa kom höfðu þeir áreitt kvenkyns leigubílstjóra, sem ók þeim á Kópavogsbraut, í grennd við árásarstaðinn. Þeir yfirgáfu bílinn án þess að greiða farið en konuna sakaði ekki. 

Þolandi árásarinnar var flyttur á slysadeild og dvaldi á landsspítalanum í nótt en hefur verið útskrifaður. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×