Skoðun

#höfumhátt

Stella Samúelsdóttir skrifar
Í dag er alþjóðlegur baráttudagur gegn kynbundnu ofbeldi. Líkt og undanfarin ár stendur UN Women fyrir Ljósagöngu sem farin verður í dag kl.17.00. Dagurinn markar upphaf 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi. Átakinu lýkur 10. desember á alþjóðlegum mannréttindadegi.

Ein af hverjum þremur konum hefur orðið fyrir ofbeldi á lífsleiðinni. Þetta eru hræðilegar tölur og sýna í hnotskurn þetta mein sem þrífst í öllum samfélögum. Því miður er enn langt í land í baráttunni gegn kynferðisofbeldi. Hingað til hafa raddir þolenda oft á tíðum verið þaggaðar niður, bæði í íslensku samfélagi sem og heiminum öllum.

Síðastliðið sumar var okkur sýnt hvað samtakamátturinn getur gert. Fjórar ungar konur, þær Anna Katrín Snorradóttir, Glódís Tara, Halla Ólöf Jónsdóttir og Nína Rún Bergsdóttir spiluðu aðalhlutverk í atburðarás sem leiddi til ríkisstjórnarslita á Íslandi. Þær neituðu að þegja lengur. Þær neituðu að samþykkja það að ofbeldismaður þeirra fengi uppreist æru. Þær fengu nóg af leyndarhyggju þar sem tekið er á ofbeldi gegn konum og börnum af léttúð og andvaraleysi.

Af stað fór átakið #höfumhátt sem var í raun ekkert annað en bylting. Umræðan var komin af stað og hefur ekki aðeins náð háum hæðum á Íslandi heldur fór í haust af stað önnur bylgja á alþjóðavettvangi undir merkjum #metoo. Þar byrjuðu konur að fjalla um það kynbundna ofbeldi sem þær hafa upplifað. Milljónir kvenna um heim allan hafa tjáð sig og neita að þegja lengur, heilu fagstéttirnar hafa opnað sig um kynferðislega áreitni og ofbeldi sem hefur verið ríkjandi á vinnustöðum. Þögnin hefur verið rofin.

UN Women vinnur að því á heimsvísu að uppræta ofbeldi gegn konum. Helstu áherslur eru að koma í veg fyrir ofbeldi gegn konum, tryggja þolendum viðeigandi aðstoð, stuðla að sterkari löggjöf og framfylgd laga um ofbeldi gegn konum. Á meðan ofbeldi viðgengst og refsileysi ríkir munu framfarir í jafnréttisbaráttunni ekki eiga sér stað.

Við hjá UN Women á Íslandi fögnum því að konur láti í sér heyra. Við eigum öll, bæði íslenskt samfélag sem og stjórnvöld, að styðja og hjálpa brotaþolum að ná fram réttlæti. Það má ekki gerast að þeir sem svívirða stúlkur og konur geti gengið um hvítþvegnir á meðan þolendur feta sig áfram í myrkrinu þar sem enginn heyrir í þeim né vill hlusta.

Seinna í dag munum við fylkja okkur að baki þessum fjórum hugrökku ungu konum, þeim Önnu Katrínu, Höllu Ólöfu, Nínu Rún og Glódísi Töru. Þátttaka þeirra er táknræn fyrir raddir allra þeirra kvenna sem ekki fá hljómgrunn. Sterkar konur sem höfðu hátt og gáfust ekki upp. Þær eru kyndilberar Ljósagöngu UN Women í ár.

Baráttunni er ekki lokið - en byltingin er hafin!

 

Höfundur er framkvæmdastýra UN Women á Íslandi.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×