Handbolti

Kári: Þetta dómarapar á ekki heima í deildinni

Benedikt Grétarsson skrifar
Kári var afar ósáttur við dómgæsluna.
Kári var afar ósáttur við dómgæsluna. vísir/eyþór
„Við fáum á okkur 19 mörk í fyrri hálfleik og 34 alls. Það er bara langt yfir því sem við höfum verið að fá á okkur í vetur og við náum bara engum takti í varnarleiknum. Svo er sóknarleikurinn ekkert sérstakur í seinni hálfleik þó að við skorum 31 mark. Við erum bara langt á eftir þeim í vörn og markvörslu,“ sagði Kári Garðarsson eftir 34-31 tap Gróttu gegn Fjölni í Olísdeild karla.

Varnarleikurinn var lélegur og óhætt er að segja að slíkt megi líka segja um sóknarleikinn á ögurstundu.

„Menn ætluðu að kvitta fyrir og komast í jafnan leik og reyna að stela sigrinum og þá gerast svona hlutir. Heilt yfir, erum við okkur sjálfum verstir í þessum leik. Fjölnir á þennan sigur svo sannarlega skilið.“

Blaðamaður minnist á þá staðreynd að það var allt að verða vitlaust hjá báðum liðum vegna dómgæslunnar.

„Það er hárrétt, það var við það að sjóða upp úr og ekki að ástæðulausu. Mér fannst þetta vera á köflum algjör sirkus, ég verð að segja það alveg eins og er. Þetta dómarapar á að mínu viti ekki heima í þessari deild og á þessu „leveli“. Það er bara ekki mitt að stjórna dómaramálum á Íslandi, kannski sem betur fer,“ sagði mjög ósáttur Kári.

Finnur Ingi Stefánsson fór meiddur af velli í fyrri hálfleik og fyrstu fréttir herma að um meiðsli á hásin sé að ræða.

„Hann er bara upp á spítala núna. Hann hefur verið að glíma við meiðsli í hásin og við vonum bara það besta. Það er best að láta læknana úrskurða um þetta og vera ekki að geta of mikið í eyðurnar,“ sagði Kári að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×