Handbolti

Landsliðsmarkvörður Króata verður samherji Stefáns Rafns

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mirko Alilovic fer frá meisturunum til hins árlega silfurliðs.
Mirko Alilovic fer frá meisturunum til hins árlega silfurliðs. vísir/getty
Mirko Alilovic, landsliðsmarkvörður Króatíu í handbolta, yfirgefur ungverska stórliðið Veszprém næsta sumar og gengur í raðir næst stærsta liðsins þar í landi, Pick Szeged.

Alilovic, sem Íslendingar hafa alltof oft séð loka markinu á móti strákunum okkar í landsleikjum, hefur varið mark Veszprém síðan 2011 og orðið ungverskur meistari á hverju ári síðan hann kom til liðsins.

Hann fór með Veszprém í úrslitaleik Meistaradeildarinnar ásamt Aroni Pálmarssyni árin 2015 og 2016 og þá hefur hann átt góðu gengi að fagna með króatíska landsliðinu frá því hann hóf að verja mark þess fyrir tíu árum síðan.

Þessi 32 ára gamli markvörður fær aftur Íslending sem samherja en Stefán Rafn Sigurmannsson gekk í raðir Pick Szeged í sumar.

Veszprém er búið að ganga frá samningi við arftaka Alilovic en einn allra besti markvörður heims, spænski Serbinn Arpad Sterbik, snýr aftur til meistaranna frá RK Vardar í sumar.

Sterbik, sem er fæddur í Júgóslavíu en fékk spænskan ríkisborgararétt árið 2008, hefur um árabil verið einn af þeim allra bestu, ef ekki hreinlega sá besti, en hann varð heimsmeistari með Spáni árið 2013 og vann Meistaradeildina með Vardar í vor.

Sterbik, sem er 38 ára gamall, hefur á sínum glæsta ferli með Veszprém, Ciudad Real, Atlético Madrid, Barcelona og Vardar unnið ótal titla og spilað tæplega 100 landsleiki fyrir Spán.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×