Handbolti

Janus Daði með þrjú mörk og þrjár stoðsendingar í sigri | Sjáðu hvað handboltastrákarnir okkar gerðu í kvöld

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Janus Daði átti fínan leik fyrir Aalborg.
Janus Daði átti fínan leik fyrir Aalborg. vísir/laufey
Íslendingaliðið Aalborg lyfti sér upp í 4. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar í handbolta með naumum sigri, 24-23, á Bjerringbro/Silkeborg í kvöld.

Strákarnir hans Arons Kristjánssonar hafa nú unnið tvo deildarleiki í röð. Janus Daði Smárason skoraði þrjú mörk og gaf þrjár stoðsendingar í liði Aalborg. Arnór Atlason var ekki með í kvöld.

Århus hefur gefið hressilega eftir í síðustu leikjum og í kvöld gerði liðið jafntefli, 28-28, við Nordsjælland á heimavelli. Århus hefur aðeins fengið eitt stig í síðustu fimm leikjum sínum.

Róbert Gunnarsson skoraði þrjú mörk fyrir Århus en Sigvaldi Guðjónsson og Ómar Ingi Magnússon komust ekki á blað.

Aron Pálmarsson skoraði tvö mörk fyrir Barcelona sem vann öruggan sigur á Zamora, 32-20, í spænsku úrvalsdeildinni. Börsungar hafa unnið alla 12 deildarleiki sína í vetur og eru með sjö stiga forskot á toppnum.

Geir Guðmundsson komst ekki á blað hjá Cesson-Rennes sem gerði 30-30 jafntefli við Toulouse í frönsku úrvalsdeildinni.

Ásgeir Örn Hallgrímsson var ekki á meðal markaskorara hjá Nimes sem steinlá fyrir Nantes, 30-23.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×