Fótbolti

Allir nema Messi vissu að Neymar væri að fara frá Barcelona

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Neymar og Lionel Messi í leik með Barcelona.
Neymar og Lionel Messi í leik með Barcelona. Vísir/Getty
Lionel Messi, leikmaður Barcelona, segir í nýju viðtali við ESPN að hann vissi ekk að Neymar væri á leið frá Barcelona til Paris Saint-Germain í Frakklandi fyrr en á síðustu stundu.

Svo virðist sem flestir í liðinu, eða hreinlega allir, hafi vitað þetta á undan Messi en núverandi og fyrrverandi leikmenn liðsins á borð við Gerard Pique og Xavi hafa opinberað að Neymar sagði þeim frá þessu í brúðkaupi Messi síðasta sumar.

Messi viðurkennir að hann fékk að vita hvað stóð Neymari til boða en hann var einn sá allra síðasti til að vita að hann ætlaði í alvörunni að yfirgefa Nývang.

„Í sannleika sagt þá vissi ég ekki að Neymar var að segja frá þessu í brúðkaupinu,“ segir Messi.

„Við vorum að tala saman á síðasta degi æfingaferðarinnar í Bandaríkjunum og þá vissi ég enn þá ekki neitt. Hann sagðist óviss um hvað hann ætlaði að gera. Aðrir sögðust vita það en ég vissi ekkert þarna.“

Neymar sagði Pique, Xavi og fleirum í brúðkaupinu að hann vildi prófa eitthvað nýtt og fór þess vegna til Parísar.

„Ég spurði hann hvers vegna hann vildi fara og Neymar sagðist vera óánægður í Barcelona og að hann vildi fá nýja upplifun í Frakklandi. Það var hans ákvörðun og við verðum að virða hana,“ segir Lionel Messi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×