Körfubolti

Jóhann: Umræðan háværari því Lewis er að leika sér í Ameríku

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jóhann Þór ræðir við sína menn.
Jóhann Þór ræðir við sína menn. vísir/andri marinó
„Ég er mjög ánægður með sigurinn. Frammistaðan á köflum var ekkert æðisleg en það eru ljósir punktar og sigurinn góður,“ sagði Jóhann Þór Ólafsson þjálfari Grindavíkur eftir tíu stiga sigur þeirra á KR í Grindavík í kvöld.

KR mætti með hálf vængbrotið lið til leiks í kvöld en þeir voru án þriggja lykilmanna í leiknum.

„Það vantar þrjá menn hjá þeim, þann allra besta og svo Sigga (Sigurð Þorvaldsson) og Pavel (Ermolinskij). Það hefur auðvitað áhrif á þeirra leik og ég myndi segja á okkur líka. Við erum búnir að undirbúa okkur alla vikuna miðað við að þeir séu með og svo vitum við þetta rétt fyrir leik.“

„Við kannski urðum eitthvað værukærir við það en við unnum og vorum hörkugóðir á köflum. Það er jákvætt,“ bætti Jóhann Þór við.

Rashad Wack átti stórgóðan leik fyrir Grindvíkinga í kvöld, endaði með 27 stig og raðaði niður þriggja stiga skotum. Einhver umræða hefur verið í gangi undanfarið að Grindvíkingar ættu að skipta honum út fyrir Lewis Clinch sem lék með þeim gulklæddu á síðustu leiktíð. Jóhann var sammála því að Wack væri að komast betur og betur inn í leik Grindvíkinga.

„Umræðan er háværari af því að Lewis Clinch er að leika sér í Ameríku. Við erum að púsla saman liði og það tekur tíma. Við erum með fleiri möguleika sóknarlega en í fyrra og hann á held ég bara eftir að verða betri.“

Grindvíkingar höfðu tapað þremur af síðustu fjórum leikjum í deild og bikar og sigurinn í kvöld var því enn mikilvægari í því ljósi.

„Sigurinn var mjög mikilvægur. Það var erfitt að tapa á mánudag og það tóku okkur tíma að jafna okkur eftir það. Það var mjög mikilvægt að koma til baka og ná sigri, síðan er auðvitað alltaf gaman að vinna KR,“ sagði Jóhann að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×