Körfubolti

Ellefti sigur Celtics í röð

Magnús Ellert Bjarnason skrifar
Kyrie gat lítið tekið þátt í nótt vegna heilahristings en liðsfélagar hans redduðu málunum.
Kyrie gat lítið tekið þátt í nótt vegna heilahristings en liðsfélagar hans redduðu málunum. Vísir/Getty
Átta leikir voru spilaðir í NBA deildinni í körfubolta í nótt. Boston Celtics hafa nú unnið ellefu leiki í röð, en liðið bar sigurorð af Charlotte Hornets á heimavelli, 90-87.

Hornets leiddu í hálfleik, 57-41, og mest með 18 stigum í seinni hálfleik áður en að Celtics tóku öll völd seint í þriðja leikhluta og sigldu sigrinum í höfn.

Ungu strákarnir Jason Tatum og Jaylen Brown, sem hafa verið frábærir í vetur, fóru fyrir liði Celtics í fjarveru Kyrie Irving. Tatum með 16 stig og Brown með 10 stig og 13 fráköst, tvöföld tvenna.

Kyrie varð fyrir því óhappi að fá olnboga í andlitið frá samherja sínum, Aron Baynes, eftir tæplega tvær mínútur í fyrsta leikhluta og þurfti að yfirgefa völlinn vegna hugsanlegs heilahristings.

Paul George átti stórleik í liði Oklahoma City Thunder sem hafði betur gegn L.A. Clippers 120-111. George skoraði 42 stig í leiknum ásamt því að taka 9 fráköst og gefa 7 stoðsendingar.

Thunder unnu þar með sinn fyrsta leik í fjórum leikjum en þeir héldu krísufund eftir tap gegn Denver Nuggets í fyrranótt.

Þá unnu Milwaukee Bucks góðan sigur, 94-87, á San Antonio Spurs á útivelli. Gríska fríkið, eins og Giannis Antetokounmpo er kallaður, fór fyrir liði Bucks sem áður með 28 stig og 12 fráköst.

Önnur úrslit næturinnar:

Atlanta Hawks - Detroit Pistions 104-111

Indiana Pacers - Chicago Bulls 105-87

Orlando Magic - Phoenix Suns 128-112

Miami Heat - Utah Jazz - 84-74

Brooklyn Nets - Portland Trailblazers 101-97

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×