Erlent

Læknar ráðþrota yfir 28 kílóa ungabarni

Samúel Karl Ólason skrifar
Luis Manuel er nú mun stærri en þriggja ára bróðir hans.
Luis Manuel er nú mun stærri en þriggja ára bróðir hans. Vísir/AFP
Hinn tíu mánaða gamli Luis Manuel Gonzales er 28 kíló og enginn virðist geta útskýrt af hverju. Mögulega mun hann þurfa að ganga í gegnum dýra læknameðferð en foreldrar hans í Mexíkó hafa lítið á milli handanna. Offita og sykursýki barna er alvarleg vandamál í Mexíkó en þegar Luis Manuel fæddist var hann 3,5 kíló, eins og eldri bróðir sinn.

Þegar hann varð tveggja mánaða var Luis Manuel orðinn tíu kíló og á átta mánuðum hefur hann bætt á sig átján kílóum til viðbótar. Eldri bróðirinn Mario er nú að verða þriggja ára en er mun minni en Luis Manuel sem getur hvorki gengið né skriðið.

Samkvæmt AFP fréttaveitunni þykir flestum læknum sem hafa rannsakað hann líklegt að Luis Manuel þjáist af Prader-Willi heilkenninu. Það er genagalli sem felur í sér að börn hafa ávalt list á mat og slæma vöðvabyggingu. Hins vegar borðar Luis Manuel ekki mikið og er ekki mikið að biðja um mat.



Heilkennið getur einnig valdið hjartagalla og hægt á þróun heila og kynfæra.

Rándýr meðferð

Upprunalega hélt móðir Luis Manuel að brjóstamjólk hennar hefði verið svo góð. Það hafi hins vegar fljótt komið í ljós að þetta væri ekki eðlilegt. Foreldrar hans skiptast á að fara með Luis Manuel á sjúkrahús þar sem hann þarf að fara í blóðprufu allt að fjórum sinnum á viku.

En ekki eru allir læknar ráðþrota yfir ástandi Luis Manuel. Einn læknir sagði mögulegt að hann þyrfti að fá hormónasprautur sem kosti tæpar 60 þúsund krónur hver. Það er um þreföld mánaðarlaun föður Luis Manuel.

Annar læknir sem skoðaði Luis Manuel nýverið, Silvia Orozco, sagði ástand hans vera lífshættulegt en mögulega væri tiltölulega auðvelt að bæta það. Hana grunar að í stað þess að Luis Manuel sé með Prader-Willi heilkennið sé vandamál hans að móðir hans hafi ekki fengið nægilega mikið af ákveðnum næringarefnum þegar hún var ólétt og því virki ákveðnir kirtlar sem stýri meltingu Luis Manuel ekki nægilega vel.

Verið er að bíða eftir niðurstöðum rannsókna frá Bandaríkjunum og komi í ljós að Orozco hafi rétt fyrir sér munu lífslíkur Luis Manuel vera nokkuð góðar. Þær munu þó fela í sér mjög dýrar hormónasprautur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×