Svíar tryggðu sér farseðilinn til Rússlands

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Florenzi svekktur í leiknum í kvöld.
Florenzi svekktur í leiknum í kvöld. vísir/getty
Í fyrsta skipti síðan 1958 verður ítalska landsliðið ekki með á HM í knattspyrnu. Ítalía og Svíþjóð gerðu markalaust jafntefli á San Siro í kvöld og Svíar vinna því einvígið, 1-0, og fara til Rússlands.

Hinn spænski dómari leiksins, Jesus Gil Manzano, stal senunni í fyrri hálfleik en þá tók hann tvær augljósar vítaspyrnur af Svíum. Skítalykt af málinu sögðu þá margir en hann bætti það upp í síðari hálfleik með því að dæma ekki víti á Svía.

Ítalir miklu betri, stýrðu umferðinni en sköpuðu ekkert mörg opin færi gegn vel skipulagðri sænskri vörn. Það var því markalaust í leikhléi.

Svíarnir héldu skipulagi í síðari hálfleik. Leyfðu Ítölum að vera með boltann, koma upp völlinn en lokuðu svo á þá fyrir utan vítateiginn. Ítalir rembdust og rembdust en lítið gekk.

Það var lítið um svör hjá Ítölum. Ekkert frumkvæði, enginn andi og ekkert að frétta. Lélegt heitir það á góðri íslensku.

Þeir lögðu allt undir á lokamínútunum en allt kom fyrir ekki. Liðið skoraði ekki í tveimur leikjum gegn Svíum og Ítalía verður því ekki með á HM.

Magnað afrek aftur á móti hjá sænska liðinu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira