Innlent

40 prósent færri umsóknir um alþjóðlega vernd milli ára

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Heildarfjöldi umsókna á fyrstu níu mánuðum ársins var 883.
Heildarfjöldi umsókna á fyrstu níu mánuðum ársins var 883. VÍSIR/STEFÁN
Umsóknum um alþjóðlega vernd á Íslandi fækkaði um þriðjung á milli ágúst og september í ár. Alls voru umsóknirnar í september 104 talsins en þær voru í 154 í ágúst.

Þá voru þær 176 í septembermánuði á síðasta ári. Flestir umsækjendanna voru ríkisborgarar Georgíu og Albaníu en alls voru umsækjendur af 27 þjóðernum.

Útlendingastofnun
Þetta er meðal þess sem kemur fram í frétt á vef Útlendingastofunnar. Þar segir jafnframt að heildarfjöldi umsókna á fyrstu níu mánuðum ársins hafi verið um 883, tæpum 60% fleiri en á sama tímabili árið 2016. Þá voru þær 561.

63 prósent umsækjenda í september komu frá ríkjum á lista yfir örugg upprunaríki. 81% umsækjenda voru karlkyns og 19% kvenkyns. 87% umsækjenda voru fullorðnir og 13% yngri en 18 ára. Einn umsækjandi kvaðst vera fylgdarlaust ungmenni.

„Niðurstaða fékkst í 130 mál í septembermánuði. 49 umsóknir voru teknar til efnislegrar meðferðar og þar af voru 27 mál afgreidd með ákvörðun í forgangsmeðferð fyrir tilhæfulausar umsóknir. 26 mál voru afgreidd með ákvörðun um endursendingu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, þrjú mál voru afgreidd með synjun á grundvelli þess að umsækjendurnir höfðu þegar fengið vernd í öðru ríki og 52 umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka.

Útlendingastofnun
Meðalmálsmeðferðartími allra umsókna um vernd sem afgreiddar voru með ákvörðun á þriðja ársfjórðungi 2017 var 127 dagar. Að meðaltali tók 103 daga að afgreiða umsókn á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar (55 mál), 190 daga í hefðbundinni efnismeðferð (74 mál) og 41 dag í forgangsmeðferð fyrir tilhæfulausar umsóknir (39 mál),“ segir meðal annars á vef stofnunarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×