Skoðun

Ellismellir á Alþingi!

Ingimundur Gíslason skrifar
Það er mikið rætt um jafnvægi í fjölda einstaklinga í hinum ýmsu hópum á Alþingi. Nú hallar meira en áður á fjölda kvenna inni á nýkjörnu þingi og engir innflytjendur eiga þar sæti nú. En hvernig háttar skiptingu þingsæta eftir aldri?

Við lauslega samantekt nú í byrjun nóvember 2017 kemur í ljós að meðalaldur nýkjörinna þingmanna er 49 ár. Sá elsti er 68 ára og sá yngsti 26 ára. Eftir kosningarnar nú í lok október komu 16 nýir þingmenn inn á Alþingi. Meðalaldur þeirra er 48 ár. Sá elsti er 63 ára og sá yngsti 34 ára.

Hressir með kollinn í lagi

Um það bil 40 þúsund eldri borgarar voru með kosningarétt í kosningunum í október síðastliðnum eða um 16 prósent þeirra sem voru á kjörskrá. Aðeins einn úr þeirra hópi situr á Alþingi eða 1,6 prósent þingmanna.

Við vitum að margt eldra fólk er haldið sjúkdómum og ellihrörnun en í þessum hópi eru líka margir hressir og kátir og með kollinn í lagi. Þess vegna vaknar sú spurning hvers vegna eldri borgarar eigi svo fáa úr sínum hópi á þingi.

Vanþekking og fordómar?

Getur verið að eitthvað djúpt í meðvitund þjóðarinnar virki eins og ósýnileg hindrun? Vanþekking og fordómar? Kannski finnst okkur að eldri borgarar séu best geymdir niðri við Tjörn með barnabörnum að gefa öndum brauð eða spila bingó úti í bæ. Þá eru þeir allavega ekki að þvælast fyrir þeim sem yngri eru.

Í öðrum löndum láta þeir sem eldri eru til sín taka í stjórnmálum. Sem dæmi má nefna að Ronald Reagan var rétt tæplega sjötugur þegar hann tók við forsetaembættinu í Bandaríkjunum. Hann sat svo í embætti í átta ár. Bernie Sanders öldungadeildarþingmaður lætur enn til sín taka á Bandaríkjaþingi 76 ára gamall. Donald Trump var sjötugur í janúar síðastliðnum þegar hann varð forseti.

 

Höfundur er augnlæknir.




Skoðun

Sjá meira


×