Innlent

Reyndi að fá Baldur sýknaðan

Samúel Karl Ólason skrifar
Jón Steinar Gunnlaugsson og Baldur Guðlaugsson.
Jón Steinar Gunnlaugsson og Baldur Guðlaugsson. Vísir/Ernir/GVA

Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, hefur viðurkennt að hafa reynt að fá samdómara sinn til að sýkna náinn vin sinn í máli Þar sem Jón hafði lýst yfir eigin vanhæfi. Vinurinn, Baldur Guðlaugsson, var dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir innherjasvik árið 2012. Jón Steinar viðurkenndi afskiptin í viðtali við Kveik á RÚV nú í kvöld.

Sjá einnig: Hæstiréttur staðfesti dóminn - Baldur í tveggja ára fangelsi

Jón Steinar gaf nýverið út bókina Með lognið í fangið – Um afglöp Hæstaréttar eftir hrun. Hæstaréttardómarinn Benedikt Bogason höfðaði mál á hendur Jóni Steinari vegna ummæla í bókinni. Nánar tiltekið, þeim ummælum Jóns Steinars að Benedikt og aðrir dómarar í meirihluta Hæstaréttar hafi framið dómsmorð á Baldri.

Sjá einnig: Hæstaréttardómari höfðar meiðyrðamál gegn Jóni Steinari

Í frétt Ríkisútvarpsins segir að fram komi í stefnu Benedikts að Jón Steinar hafi ítrekað gert sér ferð inn á skrifstofur dómara í málinu og reynt að hafa áhrif á niðurstöðu þess.

„Þetta gerði stefndi þvert gegn venju og óskráðum siðareglum sem fylgt er í Hæstarétti enda á dómari sem ekki situr í máli og hefur ekki hlýtt á málflutning í málinu ekkert með að blanda sér með þessum hætti í meðferð þess. Þetta á enn frekar við þegar viðkomandi dómari er vanhæfur til þess að fara með viðkomandi mál sökum vinatengsla við aðila máls,“ segir í stefnunni samkvæmt RÚV.

Jón Steinar viðurkenndi þetta í áðurnefndu viðtali og einnig að hann hafði afhent þremur dómurum skjal þar sem hann hafði rökstutt af hverju þeir ættu að sýkna Baldur.

Vilhjálmur Vilhjálmsson, lögmaður Benedikts, segir að mögulega hefði átt að kæra afskiptin á sínum tíma. Dómsformaður hefði verið látinn vita og hann hefði talað við Jón Steinar og hann hefði beðist afsökunar. Málið hefði stoppað þar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.