Innlent

Bilun hjá 1984: „Gríðarlega alvarlegt mál“

Birgir Olgeirsson skrifar
Mörður Ingólfsson, framkvæmdastjóri 1984.
Mörður Ingólfsson, framkvæmdastjóri 1984. Vísir
„Við erum langstærsta vefhýsingafyrirtækið á landinu og þetta er því gríðarlega alvarlegt mál,“ segir Mörður Ingólfsson, framkvæmdastjóri vefhýsingarfyrirtækisins 1984, sem hefur glímt við alvarlega bilun í dag og í gær.

Fyrirtækið hýsir þúsundir vefja en bilun í vélbúnaði hefur gert það að verkum að fjölmargir íslenskir vefir og póstþjónusta liggur niðri.

Mörður segir starfsmenn fyrirtækisins vinna sleitulaust að því að setja upp vefsvæði og tölvupóst viðskiptavina fyrirtækisins úr afritum. „Og við munum ekki una okkur hvíldar fyrr en það er í höfn.“

Spurður um orsök bilunarinnar segir hann þau ekki liggja fyrir. „ Það verður rannsóknarefni bæði fyrir okkur og þann sem selur og þjónustar búnaðinn. Við verðum að finna svör við því en það gæti tekið tíma. Okkar meginmarkmið þessa stundina er að tryggja hagsmuni okkar viðskiptavina, að þeir geti notað tölvupóst og vefi sína.“

Hann segir að ekki sé búið að útiloka tölvuárás, þó að það verði að teljast ólíklegt að hans sögn þessa stundina að árás hafi orsakað þessa bilun.  „ En það er í sjálfu sér ekkert ómögulegt, það er allt opið.“

Aðspurður segir hann að það muni liggja betur fyrir síðar í dag hvenær sér fyrir endann á viðgerð og að reksturinn komist í samt lag.

Meðal fyrirtækja og félagasamtaka sem hýsa vefsíður sínar hjá 1984 eru Sjálfstæðisflokkurinn, Píratar, Exton, Kraftur, MustSee.is, Kop.is, Lumex.is, islenskheimili.is, Skessuhorn og Eiríkur Jónsson. Þá eiga fjölmargir einstaklingar í vandræðum og komast ekki í tölvupóstinn sinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×