Skoðun

Samlokan opnuð

Sveinn Andri Sveinsson skrifar
Í Fréttablaðinu þann 16. nóvember 2017 var slegið upp í fimm dálka fyrirsögn frétt um það að Skúli Gunnar Sigfússon, oft kenndur við Subway, sem er skyndibitastaður sem selur samlokur, hefði kært undirritaðan lögmann og skiptastjóra EK1923 ehf til Héraðssaksóknara fyrir rangar sakargiftir og einhvers konar þvinganir. Vegna uppsláttarins í blaðinu telur undirritaður rétt að koma á framfæri, á sama vettvangi, óbrengluðum upplýsingum um hvað kærur þrotabúsins á hendur kærðu snúast.

EK1923 var hér áður fyrr betur þekkt sem Eggert Kristjánsson Heildverzlun hf og var stofnað 1923. Kærði keypti félagið í ársbyrjun 2014 og rúmlega tveimur árum síðar kröfðust lánadrottnar þess að bú félagsins yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Gekk úrskurður um það í september 2016. Sama dag og undirritaður var skipaður skiptastjóri höfðu kröfuhafar samband og hvöttu skiptastjóra til að velta við hverjum steini þar sem grunur væri til staðar um það að eigandi félagsins hefði hreinsað það að innan.

Eftir mikla rannsóknarvinnu skiptastjóra og sérfræðinga sem ráðnir voru til aðstoðar, var það niðurstaða skiptastjóra að fyrrum fyrirsvarsmaður og samstarfsmenn hans, hefðu í viðskiptum hins gjaldþrota félags EK við önnur félög í eigu fyrirsvarsmanns annars vegar með meintum refsiverðum hætti tileinkað sér tæplega 50 mkr. úr sjóðum þess og hins vegar að í tengslum við þessa gerninga og fleiri ætti þrotabúið hátt í 400 mkr. kröfu á hendur tveimur félögum í eigu fyrirsvarsmannsins, m.a. á grundvelli riftunarreglna gjaldþrotalaga. Samþykkti sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu að kyrrsetja eigur viðkomandi til tryggingar á kröfum þrotabúsins.

Framsal endurkröfu á ríkið

Tvö félög í eigu kærða, EK og Sólstjarnan ehf, höfðu það verkefni að flytja inn, geyma og og selja vörur til þriðja félagsins í samsteypu kærða, Stjörnunnar ehf, sem rekur samlokustaðina. Bæði félögin tóku þátt í útboðum vegna innflutnings á landbúnaðarafurðum og bæði félögin eignuðust kröfur á hendur ríkissjóði þegar gjaldtaka í tengslum við útboðið var dæmd ólögmæt. Sólstjarnan gerði endurkröfu á ríkissjóð og var þeirri endurgreiðslu síðan ráðstafað til Stjörnunnar. Í tilviki EK var hins vegar endurkrafa á ríkið að fjárhæð 24 mkr.

framseld Stjörnunni samkvæmt sérstökum framsalssamingi og það félag krafði svo ríkið um greiðsluna. Var þetta gert rétt rúmlega þremur mánuðum áður en krafa um gjaldþrotaskipti var lögð fram. Ekki var til pappírssnepill í fórum EK um þetta framsal né var nokkuð í bókhaldi EK sem gaf til kynna að EK skuldaði Stjörnunni þessa fjármuni. Hafði þáverandi framkvæmdastjóri EK ekki hugmynd um þetta framsal. Við skýrslutökur hjá skiptastjóra létu menn þessa framsals í engu getið. Byggir skiptastjóri á því að ásetningur hefði staðið til þess að leyna þrotabúið þessum gerningi.

Kæra var send Héraðssaksóknara vegna þessa fyrir ætluð auðgunarbrot og ranga skýrslugjöf hjá skiptastjóra. Samhliða var höfðað riftunarmál sem dómtekið var nýverið. Fram kom hjá einum kærðu við aðalmeðferð þess máls, að ákveðið hefði verið að hafa þann hátt á framselja kröfuna, þar sem á þeim tímapunkti hefðu menn verið að reyna að selja EK. Verður vakin athygli Héraðssaksóknara á þessari játningu.

Bankabók tæmd

Á sama tíma og kærði gerði tilboð í EK, keypti fasteignafélag hans, Sjöstjarnan ehf, fasteign EK að Skútuvogi 3 í Reykjavík fyrir 475 mkr. Um 330 mkr. voru sannarlega greiddar af kaupverðinu. Var EK gerður að leigutaka í eigninni. Haustið 2015 gerðu Reitir tilboð í eignina upp á kr. 670 mkr. Til þess að kaupin gengju eftir varð EK að leggja fram 21 mkr. leiguábyrgð. Þar sem EK var ekki í stakk búið til þess að reiða fram það fé, lánaði Sjöstjarnan EK 21 mkr. sem lögð var inn á bankabók í eigu EK sem síðan var handveðsett viðskiptabanka EK þannig að gefa mætti út leiguábyrgð. Tæplega tveimur mánuðum áður en krafist var gjaldþrotaskipta var gert samkomulag mill EK og Reita um að rifta leigusamningi og þar sem nýr leigutaki var kominn að húsinu, ákváðu Reitir að ganga ekki að tryggingunni. Strax í kjölfarið ákváðu fyrirsvarsmenn EK og Sjöstjörnunnar að EK skyldi greiða að fullu þessa kröfu Sjöstjörnunnar. Var innistæðan millifærð á Sjöstjörnuna og bókin eyðilögð. Var það gert þrátt fyrir að fyrir lægi á þessum tímapunkti samkvæmt þeim rekstrarráðgjafa sem vann að endurskipulagningu og eignasölu væru menn að vinna með 15-20% nauðasamninga við kröfuhafa. Ekkert var fært um þessa greiðslu í bókhaldi EK og ekki var á hana minnst við skýrslutökur hjá skiptastjóra.

Í kjölfar þess að tilkynnt var um riftun þessarar ráðstöfunar fékk skiptastjóri sendan lánasamning frá kærðu þar sem innistæðan á umræddri bók hafði verið veðsett á 2. veðrétti til Sjöstjörnunnar. Sá hængur var á að þessi samningur hafði aldrei verið færður í bækur EK, kærði sem kvittaði undir lánssamninginn var ekki stjórnarmaður á þeim tímapunkti auk þess sem það var skýrlega tekið fram í handveðsyfirlýsingu bankans að ekki mætti veðsetja bókina fyrir aftan veðrétt bankans. Kæra var send Héraðssakóknara vegna þessa fyrir ætluð auðgunarbrot, meint skjalabrot og ranga skýrslugjöf hjá skiptastjóra. Samhliða var höfðað riftunarmál á hendur Sjöstjörnunni.

Sala fasteignar EK

Auk þessarar tveggja riftunarmála hefur verið höfðað mál á hendur Sjöstjörnunni til riftunar og efnda á viðskiptum með fasteignina Skútuvogur 3. Er aðalkrafan 341 mkr. auk vaxta og málskostnaðar, varakrafa 322 mkr. og þrautavarakrafa 222 mkr. Það er afstaða þrotabúsins að ekki aðeins hafi umrædd eign verið seld á of lágu verði heldur hafi umsamið kaupverð ekki verið gert upp.

Kyrrsetning

Þann 19. júlí 2017 ákvað sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, að kröfu skiptastjóra að kyrrsetja eigur Sjöstjörnunnar vegna ofangreindra krafna á hendur félaginu. Vísaði eigandi félagsins einnig á persónulegar eigur sínar til kyrrsetningar til að forðast árangurslausa kyrrsetningu og gjaldþrotaskipti. Var við mat sýslumanns meðal annars horft til þess hvernig höndum menn hefðu farið um eignir EK, eins og að framan hefur verið rakið. Mál til staðfestingar kyrrsetningunni hefur verið höfðað og það verður rekið samhliða öðrum málum á hendur Sjöstjörnunni.

Kröfuhafar sáttir

Skiptastjóri starfar í umboði kröfuhafa búsins; verkefni hans er að ná sem mestu inn af eignum til þess að ráðstafa þeim upp í kröfur. Eðli máls samkvæmt hafa þær aðgerðir sem skiptastjóri hefur farið í verið bornar undir kröfuhafa; sumar með skömmum fyrirvara undir þá stærstu en aðrar kynntar á skiptafundi. Mikil mæting hefur verið af hálfu kröfuhafa á skiptafundi og mikill einhugur ríkt um málefni búsins.

Steinn í götu

Héraðssaksóknari hefur ákveðið að vísa ekki frá kærum skiptastjóra heldur taka málin til rannsóknar. Niðurstaðan kemur í ljós síðar. En hvernig þetta getur flokkast undir rangar sakargiftir er hulin ráðgáta. Skiptastjóri vildi síðan gefa hinum kærðu kost á því að vinda ofan af þessu ætlaða undanskoti með því að endurgreiða þrotabúinu og komast með því hjá kæru, enda eru mál sem þessi hvort eð er iðulega felld niður hjá lögreglu ef samningar nást. Hagsmunir kröfuhafa eru fyrst og fremst þeir að fá fjármunina til baka og auðvitað hefði endurgreiðsla verið kærðu til hagsbóta, til lengri tíma litið. Það er heldur betur verið að snúa hlutunum á haus þegar slík sáttaboð eru kölluð þvinganir.

Á sama tíma og einhugur hefur ríkt meðal kröfuhafa, er ekki sama ánægjan af hálfu fyrrum fyrirsvarsmanns. En í stað þess að horfast í augu við staðreyndir málsins hefur verið tekin sú stefna að reyna að gera skiptastjóra allt til miska og með sífelldum kærum út og suður að leggja stein í götu hans í þeim störfum sem honum hefur verið falið að inna af hendi af héraðsdómi og kröfuhöfum. Að mati skiptastjóra er þær hugsaðar til að trufla störf hans sem opinbers sýslunarmanns. Þær munu ekki bera árangur og til skoðunar kemur að leggja fram kæru vegna þessarar háttsemi.



Höfundur er hæstaréttarlögmaður og skipaður skiptastjóri í þrotabúi EK1923 ehf.




Skoðun

Sjá meira


×