Fótbolti

Arnór Ingvi ætlar að yfirgefa AEK

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Arnór Ingvi bjóst við fleiri tækifærum þegar hann skrifaði undir hjá AEK í sumar.
Arnór Ingvi bjóst við fleiri tækifærum þegar hann skrifaði undir hjá AEK í sumar. mynd/aek
Arnór Ingvi Traustason gæti verið á leið aftur til Svíþjóðar þegar félagaskitpaglugginn opnar í janúar. Þessu greina sænskir fjölmiðlar frá í dag.

Arnór Ingvi spilaði með Norrköping og varð með félaginu sænskur meistari árið 2015. Þaðan fór hann til Rapid Wien í Austurríki og nú síðast liðið sumar færði hann sig um set til AEK Aþenu.

Tækifærin hafa verið fá hjá Arnóri í vetur og hann mikið þurft að dvelja á varamannabekknum. Með Heimsmeistaramótið í Rússlandi næsta sumar í huga er hann farinn að hugsa sér til hreyfings, og gæti verið á leið til sænska félagsins Malmö.

„Það er mikið um orðróma þessa stundina. Við sjáum til hvað gerist. Ég fæ engan spilatíma núna og stjórinn hefur sagt að ég sé ekki inni í hans plönum. Þá þarf ég að finna mér annað félag,“ sagði Arnór við sænska fjölmiðla.

„Ég skoða alla möguleika. Ég vil fá að spila svo ég missi ekki sæti mitt í landsliðinu. Umboðsmaðurinn minn er að vinna í þessu og það kemur í ljós hvað gerist.“

Arnór hefur aðeins komið við sögu í fimm leikjum með gríska félaginu í vetur, skorað eitt mark og lagt upp eitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×