Innlent

Hvassviðri með éljum í næstu viku: Fólk sem hyggur á ferðalög ætti að fylgjast vel með veðurspám

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Veðurspáin fyrir næstu daga er mjög kuldaleg.
Veðurspáin fyrir næstu daga er mjög kuldaleg. Vísir/Vilhelm
Útlit er fyrir norðaustan hvassviðri með éljum frá þriðjudegi til föstudags, en nokkur óvissa er þó í spánum. Fólk sem hyggur á ferðalög í næstu viku er hvatt til að fylgjast vel með þróun veðurspáa og viðvarana samkvæmt athugasemdum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Mjög kuldaleg veðurspá næstu daga, mikil hæð verður yfir Grænlandi og lægðirnar fara framhjá langt fyrir sunnan land. Við erum því föst í kaldri norðaustanátt alla vikuna með éljagangi fyrir norðan og austan, en lengst af björtu veðri sunnan heiða samkvæmt hugleiðingum veðurfræðings.  Heldur bætir í vind og ofankomu á morgun og frá þriðjudegi má búast við hvassviðri og éljagangi eða snjókomu norðan- og austantil á landinu og því ráðlagt að fylgjast vel með veðurspám. Það dregur síðan að öllum líkindum bæði úr vindi og éljum næstu helgi.

Veðurhorfur á landinu í dag:

Norðan og norðaustan 5-13 með morgninum. Él norðantil, en bjart að mestu fyrir sunnan. Heldur hvassara á morgun og úrkomumeira, en áfram bjart sunnantil. Frost 2 til 12 stig, kaldast inn til landsins.

 

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á mánudag:

Norðan og norðaustan 8-13 m/s og él um landið norðanvert, en heldur hægari og bjart sunnantil. Heldur hvassara um kvöldið. Frost 3 til 13 stig, kaldast í innsveitum.

Á þriðjudag:

Norðan- og norðaustan 10-18 m/s. Él með norðurströndinni, snjókoma um landið austanvert, en yfirleitt þurrt og bjart suðvestantil. Frost 2 til 12 stig, kaldast í innsveitum.

Á miðvikudag, fimmtudag og föstudag:

Norðaustan hvassviðri og hríð, en bjartviðri sunnan og vestanlands. Kalt í veðri.

Á laugardag:

Útlit fyrir norðanátt með dálitlum éljum og kólnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×