Innlent

Námu hugsanlega boð úr neyðarsendi týnda kafbátsins

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Á myndinni má sjá kafbátinn ARA San Juan sem leitað hefur verið af frá því á miðvikudag.
Á myndinni má sjá kafbátinn ARA San Juan sem leitað hefur verið af frá því á miðvikudag. Vísir/EPA
Fjarskiptastöðvar Bandaríkjaflota námu í gær það sem talið er að hafi verið boð úr neyðarsendi argentínska kafbátsins sem leitað hefur verið af síðan á miðvikudagsmorgun. Víðtæk leit hefur staðið yfir af kafbátnum sem er á vegum argentínska hersins en sterkir vindar og háar öldur hafa gert leitarfólki erfitt fyrir. Kafbáturinn var á leið frá borginni Ushuia til borgarinnar Mar del Plata í Argentínu og er síðast vitað um ferðir hans í Suður Argentínuhafi.

Bretland, Bandaríkin og fleiri lönd hafa boðið fram aðstoð sína við leitina samkvæmt frétt BBC. Í gær flutti Bandaríkjaher leitarteymi frá San Diego til Argentínu ásamt mikið af leitarbúnaði.

Í fyrstu var talið að að bilun hefði komið upp í fjarskiptabúnaði kafbátsins en Enrique Balbi, talsmaður argentínska hersins, sagði við Reuters í vikunni að ef um væri að ræða bilun í fjarskiptabúnaði væri báturinn kominn upp á yfirborðið.

44 manna áhöfn er um borð í kafbátnum ARA San Juan en talið er að kafbáturinn hafi aðeins verið með vistir fyrir nokkra daga.  Nú er unnið að því að þrengja leitina út frá þessum neyðarboðum sem bárust í gær þar sem talið er að þau hafi komið frá þessum kafbát. Eru það þá fyrstu vísbendingarnar sem hafa borist um staðsetningu bátsins. Merkin voru ekki nógu sterk til þess að hægt væri að greina nákvæma staðsetningu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×