Skoðun

Kostnaðarsamur og hættulegur gjaldmiðill

Baldur Pétursson skrifar
Þann 21. október var fyrirsögn leiðara Fréttablaðsins – „Ryk í augu kjósenda“. Þar segir ritstjóri Fréttablaðsins Kristín Þorsteinsdóttir: „Ástæða fyrir háum vöxtum hér á landi er krónan, og sú staðreynd að viðskipti í krónum fela í sér meiri áhættu og þar af leiðandi hærri verðmiða en viðskipti með myntir flestra landa sem við erum samferða í veröldinni.“… „Þjóðmálaumræða hér á landi, og að því er virðist sérstaklega fyrir þessar kosningar, einkennist því miður of oft af innihaldslausum klisjum án þess að hugsað sé á nokkurn hátt um útfærsluna.“

Sé þetta raunveruleg staða umræðna um stærsta hagsmunamál landsins, gjaldmiðilinn, er kostnaður og áhætta krónunnar mjög vanmetin, sem mun leiða til nýrra áfalla.

Krónan allt of lítill gjaldmiðill

Helsti lærdómurinn frá hruninu 2008, er að krónan er allt of kostnaðarsöm og hættuleg, vegna smæðar sinnar og hagkerfisins, þar sem einungis margfalt stærri gjaldmiðlar standast gríðarstóra fjármagnsflutninga, álag og hættur óvæntra atburða, sem örgjaldmiðlar eins og krónan eiga enga möguleika á að standast. Þess vegna hrundi krónan 2008, þar sem gjaldeyrisforðinn þurrkaðist upp á afar skömmum tíma vegna utanaðkomandi og innri áfalla.

Rudi Dornbusch, hagfræði­prófessor hjá MIT, hafði m.a. varað við slíkum aðstæðum eftir Asíu­kreppuna og sagði að fjármagnsflótti gæti þurrkað upp gjaldeyrisforða og valdið hruni gjaldmiðilsins á augabragði, en þar var hann að fjalla um stór lönd. Slík áhætta er því margföld hjá örgjaldmiðli, eins og sannaðist í hruni krónunnar 2008. Undirritaður tók einnig þátt í 7 skýrslum, á Íslandi á árunum 2004-2006, þar sem m.a. var varað við miklum kostnaði og áhættu krónunnar fyrir fasteignamarkaðinn, fjármálamarkaðinn, atvinnulífið og heimilin. Ég kom einnig að mörgum verkefnum og björgun banka og landa í starfi innan EBRD, systurstofnunar Alþjóðabankans, fyrir og eftir fjármálahrunið 2008, en þar var litlum löndum (mun stærri en Ísland) ráðlagt að færa sig í stærri og öruggari gjaldmiðla eins og evruna eins fljótt og hægt væri, en þeim sem enn höfðu litla gjaldmiðla var veitt aðstoð.

Kostnaður og áhætta krónunnar mikil

1. Vegna a.m.k. 3% hærri raunvaxta krónunnar en innan evrunnar, kostar hún árlega aukalega heimilin 60 milljarða, atvinnulífið 75 ma. ríkið um 35 ma. og sveitarfélög um 8 ma. Þá er ótalinn margvíslegur annar kostnaður krónunnar. Slíkur kostnaður gjaldmiðils er einsdæmi á Vesturlöndum og dregur lífskjör verulega niður.

2. Kostnaður krónunnar veldur kerfisbundinni aukinni stéttaskiptingu, þar sem tugir milljarða eru millifærðir í formi hærri vaxta, frá lántakendum og lágtekjufólki til lánveitenda og hátekjufólks umfram það sem er innan evrunnar.

3. Að meðaltali borgar einstaklingur a.m.k. eina til tvær íbúðir á Íslandi umfram aðila innan evrunnar vegna hærri vaxta. Kosti íbúðin 30 milljónir, borgar aðili á Íslandi 30-60 milljónum meira en aðili innan evrunnar, sem er jafngildir 6-12 ára vinnu.

4. Hrun krónunnar 2008 olli tjóni á efnahag fyrirtækja og einstaklinga, sem engin fordæmi eru fyrir á Vesturlöndum. 65% fyrirtækja landsins urðu gjaldþrota, skuldir tugþúsunda heimila stökkbreyttust og eignir þurrkuðust út, tjón opinberra aðila var verulegt og lífeyrissjóðir töpuðu tugum milljarða. Sumir misstu allt og munu aldrei ná sér aftur. Þetta getur gerst aftur á meðan krónan er til staðar.

5. Krónan átti stærstan þátt í hruninu á Íslandi 2008, sem sjá má af samanburði á Írlandi og Íslandi þar sem bankamenn í báðum löndum gerðu mikil mistök, en engin stökkbreyting lána varð á Írlandi eins og á Íslandi og áður er lýst sem var aðalástæða hrunsins á Íslandi.

6. Ferðaþjónusta, stærsta atvinnugrein landsins, er afar viðkvæm fyrir, öllum innri sem ytri áföllum og mun því auka áhættu krónunnar og þjóðarinnar.

7. Bankakerfið er nær allt komið í fang ríkisins (þjóðarinnar) sem gerir eigendaáhættu mikla.

8. Síðan 1950 hefur orðið reglulega mikið gengisfall á 5-10 ára fresti, sú þróun heldur áfram.

Stærri gjaldmiðill, minni kostnaður og aukið sjálfstæði

Stærsta áhætta krónunnar frá 2008, er smæðin, sem er enn til staðar og ekki er hægt að lækna nema taka upp stærri gjaldmiðil, auk þess sem aðrir áhættuþættir hafa aukist, sem eykur líkur á nýju hruni. Að komast hjá nýju hruni er einungis mögulegt með því að klára samninga við ESB sem byrjað var á 2009, og fá aðild að ERM II (myntráði) og síðar upptöku evru, sem myndi lækka vaxtakostnað og áhættu gjaldmiðilsins verulega. Þar sem Ísland er nú 100% innan ESB á innri markaðnum innan EES, hefur landið í raun verið aðili að ESB í 23 ár eða síðan 1994, sem allir eru sáttir við, sem á sama tíma hefur verið ein meginforsenda hagvaxtar og bættra lífskjara. Með aðild myndi Íslandi auk þess fá aukin áhrif á stjórnkerfi ESB og þá lagasetningu sem landið tekur upp hvort sem er, sem auka myndi áhrif og sjálfstæði landsins.

Mikilvægt er að upplýsa fólk um þessi mál og ná samstöðu, vegna mikils kostnaðar og áhættu sem stafar af krónunni sem örgjaldmiðli og til að tryggja þjóðinni öryggi, hagsæld, samkeppnishæf lífskjör og velferð til framtíðar.

 

Höfundur er fyrrverandi aðstoðarframkvæmdastjóri hjá Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×