Körfubolti

Hrafn: Drullusvekktur með skítamistök

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
vísir/andri marinó
„Ég er bara hundfúll. Stundum talar maður eftir leiki um að taka eitthvað jákvætt með sér og annað en æ, ég er bara drullu svekktur,“ sagði Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar eftir tap liðsins gegn ÍR í kvöld.

ÍR-ingar höfðu betur 75-80 í framlengdum leik í Ásgarði í fimmtu umferð Domino’s deildar karla í körfubolta.

„Við vorum með þá þar sem við vildum hafa þá. Margir okkar voru bara ekki að standa sig eins og við áttum að vera að gera. Það er bara mjög einfalt.“

„Við erum að missa einföld skot, við erum að gera mistök sem við eigum ekki að vera að gera,“ sagði Hrafn, en Stjarnan komst á tímabili í ellefu stiga forystu í leiknum.

Það var auðsjáanlegt að Hrafn var fúll eftir leikinn og hann var ekkert að skafa ofan af hlutunum.

„Þeir fóru í frekar einfalda svæðisvörn. Í hvert einasta skipti sem við gerðum það sem við viljum gera á móti 3-2 svæði þá fengum við opið skot. Í hvert einasta skipti.“

„Ef maður hleypur góða sókn á móti svæði og fær galopið skot, þó maður brenni því af þá reynir maður ekki að gera eitthvað annað næst. Maður bara hleypur sömu sóknina og hittir þessu opna skoti,“ sagði Hrafn. „Fullt af skítamistökum sem er hundfúlt að þurfa að koma með.“

Voru það þessi skítamistök, eins og hann orðaði það, sem réðu úrslitum?

„Mér fannst við leggja upp með mjög fínt plan á móti þeim, en þegar þeir fara í svæðið og við förum að taka slæmar ákvarðanir þá látum við það fara svolítið í hausinn á okkur varnarlega. Þetta var lélegt.“

„Þennan leik áttum við að vinna og það er drullufúlt að það skildi ekki hafa gengið,“ sagði Hrafn Kristjánsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×