Umfjöllun og viðtöl: Keflavík - Þór Þ. 98-79 | Þriðji sigur Keflvíkinga í röð

Magnús Einþór Áskelsson skrifar
Guðmundur Jónsson, leikmaður Keflavíkur.
Guðmundur Jónsson, leikmaður Keflavíkur. vísir/anton
Keflavíkingar fékk Þórsara frá Þorlákshöfn í heimsókn í TM höllina í kvöld. Jafnræði var með liðunum í byrjun leiks og einkenndist leikurinn af stigakeppni milli Jesse Pollot-Rosa og Cameron Forte. Undir lok fyrsta leikhluta slitu heimamenn sig frá gestunum og leiddu 26-18.

Keflvíkingar byrjuðu annan leikhluta virkilega sterkt og voru fljótt komnir með 18 stiga forskot og virtust ætla að kafsigla Þórsara. En Þórsarar gáfust ekki upp og minnkuðu muninn niður í 11 stig fyrir hálfleik 53-42.

Í þriðja leikhluta komust Þórsarar nær Keflvíkingum, náðu að minnka muninn niður í 6 stig og fengu nokkur tækifæri að minnka hann enn frekar. Reggir Dupree vaknaði til lífsins undir lok þriðja leikhluta og tryggði Keflavík 10 stiga mun 70-60.

Í fjórða leikhluta tóku Keflvíkingar öll völd og kafsilgdu Þórsara, þristarnir duttu loksins niður og höfðu Þórsarar fá svör. Jesse Pellot-Rosa fór útaf með 5 villur þegar um 4 mínútur voru eftir og var eftirleikurinn auðveldur fyrir heimamenn sem unnu leikinn 98-79.

Af hverju vann Keflavík?

Keflavík vann þennann leik á gæðunum, fleiri leikmenn skiluðu framlagi. Hittni heimamanna var líka mun betri en gestana. Þórsarar þurftu að elta allann leikinn sem kostaði mikla orku og í fjórða leikhluta fyrtist bensínið búið hjá gestunum.

Hverjir stóðu upp úr?

Fyrir Keflvíkinga skilaði Cameron Forte flottum leik en hann skoraði 33 stig og tók 11 fráköst, Reggie Dupree átti mikilvæga spretti þegar Þórsarar virtust vera að nálgast en hann skoraði 13 stig í leiknum. Fyrir Þórsara átti Jesse Pellot-Rosa ágætis leik en hann skoraði 29 stig, meirihlutann í fyrri hálfleik. Halldór Garðar Hermannsson átti mjög góðann leik en hann skoraði 21 stig og gaf 7 stoðsendingar.

Hvað gekk illa?

Varnarleikur gestanna var slakur og fékk liðið á sig 53 stig í fyrri hálfleik. Þriggjastiga hittni liðana var slök, en Keflvíkingar náðu að laga hana eilítið í fjórða leikhluta. Þórsara vantaði framlag frá fleirum mönnum og þá sérstaklega frá Emil Karel sem skoraði 7 stig í leiknum.

Tölfræði sem vekur athygli

Þriggjastiga hittni gestanna var virkilega slök þrátt fyrir að fá oft opin skot en hittnin var aðeins 6/24 eða 25%. Vítahitni heimamanna var aðeins 12/22 eða 54,5% sem þeir geta ekki verið ánægðir með.

Hvað næst?

Þórsarar fá heitasta liðið í deildinni ÍR í heimsókn í Þorlákshöfn í næstu umferð. Keflvíkingar fá Tindastól í TM höllina í sannkallaðann toppslag.

Keflavík-Þór Þ. 98-79 (26-18, 27-24, 17-18, 28-19)

Keflavík: Cameron Forte 27/11 fráköst/5 stoðsendingar, Ágúst Orrason 13, Reggie Dupree 13/4 fráköst/6 stoðsendingar, Ragnar Örn Bragason 11/4 fráköst, Magnús Már Traustason 10, Hilmar Pétursson 6/6 stoðsendingar, Daði Lár Jónsson 6, Guðmundur Jónsson 5, Þröstur Leó Jóhannsson 5/6 fráköst, Jón Arnór Sverrisson 2, Davíð Páll Hermannsson 0/4 fráköst, Kristján Örn Rúnarsson 0.

Þór Þ.: Jesse Pellot-Rosa 29/4 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 21/6 fráköst/7 stoðsendingar, Þorsteinn Már Ragnarsson 11/5 fráköst, Emil Karel Einarsson 7/8 fráköst, Snorri Hrafnkelsson 4, Davíð Arnar Ágústsson 4, Ólafur Helgi Jónsson 2/7 fráköst, Styrmir Snær Þrastarson 1, Magnús Breki Þórðason 0, Adam Eiður Ásgeirsson 0, Óli Ragnar Alexandersson 0, Helgi Jónsson 0.

Friðrik Ingi: Buðum þeim inn

Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Keflavíkur, var ekki ánægður hvernig Keflvíkingar hleyptu Þórsurum inn í leikinn eftir að hafa náð 18 stiga forskoti í öðrum leikhluta.

„Þetta var mjög kaflaskiptur leikur við spiluðum ágæta kafla í fyrri hálfleik og virtumst vera nánast að setja í lás en svo urðum við pínu kærulausir og gáfum svolítið eftir,“ sagði Friðrik Ingi.

„Vörnin varð verri á kafla undir lok fyrri hálfleiks sem gerði það að verkum að þeir voru aðeins farnir að banka á dyrnar.“

Í síðari hálfleik færðust Þórsarar enn nær Keflvíkingum en Friðrik Ingi var ánægður hvernig lið sitt brást við pressunni.

„Í þriðja leikhluta fórum við fljótlega að bjóða þeim inn en sem betur fer náðum við að leiðrétta það og laga ákveðna hluti þannig að við náðum að aftur í það tempó sem við sýndum í fyrri hálfleik og náðum þar með þessari forystu sem klárar leikinn,“ sagði Friðrik Ingi.

Einar Árni: Er ekkert að horfa á úrslitakeppnina núna

Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs, var svekktur að ná ekki að gera þetta að alvöru leik eftir að hafa minnkað muninn í 6 stig í þriðja leikhluta.

„Miðað við stöðuna á okkur í fyrri hálfleik þá var þetta komið niður í 6 stig um miðjan þriðja leikhluta sem er ekki mikill munur í körfubolta og svekkjandi að við rennum aftur á rassinn í framhaldinu og dettum á sama level og í fyrri hálfleik,“ sagði Einar Árni.

Hann er ekki sáttur með stöðu liðisins í deildinni og finnst það eiga mikið inni ennþá, en einnig benti á að leikjaprógrammið hafi ekki verið það auðveldasta í byrjun móts.

„Við erum búnir að spila við Suðurnesja liðin þrjú og Hauka og Stjörnuna í þessum fyrstu fimm leikjum og þetta er allt hörkulið en við felum okkur ekkert á bakvið það því að við teljum okkur vera lið sem á að vera í úrslitakeppni og við erum að tapa dýrum sigrum því við erum að tapa gegn liðum sem við getum verið mögulega í baráttu við um sæti í úrslitakeppninni,“ sagði Einar Árni.

„En ég er ekkert að horfa á úrslitakeppnina núna ég bara að horfa á það hvernig við getum tekið höndum saman og orðið það lið sem ég veit að eigum innistæðu fyrir.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira