Handbolti

Þórhildur um höfuðhöggið: Ég var mjög hrædd þegar ég vaknaði fyrst

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukastelpan Þórhildur Braga Þórðardóttir fékk slæmt höfuðhögg í leik Hauka og ÍBV í Olís deild kvenna um helgina en gera þurfti 46 mínútna hlé á leiknum á meðan beðið var eftir sjúkrabíl.

Þórhildur Braga fékk höfuðhögg og rotaðist í upphafi síðari hálfleiks og það leit ekki vel út. Biðin eftir sjúkrabílnum var löng og erfið en hann kom ekki fyrr en eftir tæpar 40 mínútur.

Guðjón Guðmundsson hitti Þórhildi í dag en hún segist lítið muna eftir atvikinu á Ásvöllum á sunnudagskvöldinu.

„Ég rankaði við mér stuttu eftir og vissi ekkert hvað var að gerast. Ég man voða lítið eftir þessu sem er óþægilegt. Ég vissi því ekki mikið hvað var að gerast,“ sagði Þórhildur Braga Þórðardóttir í samtali við Gaupa.

„Ég dett út í nokkrar sekúndur en það var ekki langur tími. Ég man að ég var að detta út inn á milli og þeir voru að reyna að halda mér vakandi,“ sagði Þórhildur Braga.

„Ég var mjög hrædd þegar ég vaknaði fyrst. Ég fór þá aðeins að gráta en ég róaðist mjög fljótt því þeir náðu að róa mig mikið niður,“ sagði Þórhildur Braga og hún gerði sér grein fyrir því að þetta væri alvarlegt.

„Þegar hann sagði að ég ætla að kalla á sjúkrabíl þá skynjaði ég það auðvitað,“ sagði Þórhildur Braga en hún fór í myndatöku til að taka af allan vafa en um heilahristing var að ræða.

Guðjón ræddi við Þórhildi Brögu og þjálfara hennar Elías Már Halldórsson í kvöldfréttum Stöðvar tvö en það má sjá alla fréttina í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Elías: Líðan Þórhildar skiptir meira máli en handbolti

"Líðan Þórhildar skiptir meira máli en handbolti,“ sagði Elías Már Halldórsson, þjálfari kvennaliðs Hauka, eftir sigur þeirra gegn ÍBV í kvöld. Seinni hálfleikurinn fór heldur óskemmtilega á stað því á 33. mínútu meiddist leikmaður Hauka, Þórhildur Braga Þórðardóttir, alvarlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×