Handbolti

Hóta að fækka þýskum liðum í Meistaradeildinni niður í eitt

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Leikjaálagið truflar þennan reyndar lítið.
Leikjaálagið truflar þennan reyndar lítið. vísir/getty
Svo gæti farið að aðeins eitt þýskt lið taki þátt í Meistaradeildinni í handbolta á næstu leiktíð en ekki þrjú eins og hefur verið undanfarin ár. Frá þessu greinir handboltavefurinn Handball-World.

Þetta eru vitaskuld risastórar fréttir enda þýska deildin sú langstærsta og langbesta í heiminum en þýska handknattleikssambandið og það evrópska virðast ekki ætla að komast að samkomulagi um leikjadagskrá næsta tímabils.

Samkvæmt heimildum Handball-World áttu viðræður sér staða í gær á milli stærstu félaga Evrópu og forráðamanna EHF en stærsta deilumálið var hvernig skal hagræða leikjum í kringum þýsku deildina.

EHF vill ekki lengur gefa eins mikið eftir og það hefur gert áður þegar kemur að því að semja við þá þýsku og nú gæti svo farið að þýskum liðum verði hreinlega fækkað úr þremur í eitt.

Leikjaálagið á þýsku liðunum er mikið og til að staðfesta hversu skrítin og erfið leikaniðurröðunin er fyrir þau þarf ekki að horfa lengra fram veginn en um næstu helgi.

Þýskalandsmeistarar Rhein-Neckar Löwen eiga leik á móti Leipzig á laugardaginn klukkan 17.10 að íslenskum tíma og þegar þeim leik er lokið verður innan við sólarhringur þar til liðið mætir Barcelona í Meistaradeildinni.

Málinu er ekki lokið en vonast er til þess að forráðamenn þýska sambandsins og EHF ræði betur saman á þingi Alþjóðahandknattleikssambandsins um næstu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×