Handbolti

Þórir: Ég vona að þær verði svolítið reiðar út í mig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir Hergeirsson, þjálfari kvennalandsliðs Noregs í handbolta.
Þórir Hergeirsson, þjálfari kvennalandsliðs Noregs í handbolta. Vísir/AFP
Þórir Hergeirsson, þjálfari kvennaliðs Noregs, er búinn að velja hópinn sinn fyrir heimsmeistarakeppnina sem fer fram í Þýskalandi í næsta mánuði.

Þórir valdi sextán manna hóp sem þýddi að tólf leikmenn duttu út úr upphaflega hópnum og fengu því þær fréttir í vikunni að þær væru ekki að fara á HM.

Þórir fór í engar felur þegar kom að því að tilkynna þessum leikmönnum að þær yrðu ekki með í Þýskalandi. Hann tók það verkefni að sér sjálfur að hringja í alla leikmennina tólf.

„Það er mitt starf og mín ábyrgð að koma þeim skilaboðum til þeirra,“ sagði Þórir í viðtali við NTB en Dagbladet segir frá.  Norska kvennalandsliðið er ríkjandi heims- og Evrópumeistari.

„Þetta er bara hluti af starfinu en þetta er ekki skemmtilegt verkefni fyrir mig. Ég geri það með miklum trega því ég veit að allir þessi leikmenn hafa lagt mikið á sig og gert allt sem þær gátu til að komast í hópinn,“ sagði Þórir.

„Þær hafa gert allt rétt en því miður er ekki pláss fyrir þær í liðinu. Sumar þeirra eru ekkert síðri leikmenn en skorti kannski eitthvað sérstakt sem við vorum að leita eftir til að hjálpa liðinu,“ sagði Þórir.

Þórir segir að auðvitað eru þessir leikmenn mjög vonsviknir með að fá svona fréttir.

„Þær blóta örugglega í hljóði en þær haga sér vel. Þetta eru góðar og skynsamar stelpur. Ég vona samt að þær verði svolítið reiðar út í mig og nota þá reiði til að leggja enn meira á sig og verða betri leikmenn. Þær vita að þetta er hluti af leiknum og því miður fá sumar svona fréttir einu sinni, tvisvar og jafnvel þrisvar áður en þær komast í liðið,“ sagði Þórir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×