Skoðun

Vandi leikskólanna er atvinnulífið – ekki öfugt

Sindri Þór Sigríðarson skrifar
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að skilningur á stjórnun og hugtakinu „mannauður“ sé hvort um sig af skornum skammti hér á landi. Í rannsókn sem ég vann að við Háskólann í Reykjavík, undir stjórn Dr. Páls Ríkharðssonar, var litið til notkunar innan íslenskra fyrirtækja á stjórnkerfum og stjórnarháttum (e. Management control). Kom í ljós að stjórnendur íslenskra fyrirtækja höfðu margir hverjir einungis grundvallar þekkingu á stjórnkerfum og stjórnunaraðferðum sem þekkst hafa í nágrannalöndum okkar um árabil. Fyrir þessu eru sögulegar skýringar. Smæð, fámenni og nánd eru sumar þeirra. Landlæg frændhygli, hagsmunapot og skipulagsleysi eru aðrar. Ein sú veigamesta, að mínu mati, er þó hve ný af nálinni öll fjölbreytni er á íslenskum vinnumarkaði.

Það eru ekki nema fáeinir áratugir síðan atvinna á Íslandi var fyrst og fremst verkamannavinna. Störf þar sem lausnin við öllum vanda var ýmist að lengja vinnudaginn eða fjölga starfsfólki. Þetta viðhorf virðist svo brennimerkt í atvinnulífið að það lifir enn góðu lífi í nútíma þar sem það á ekki við. Niðurstaðan er mælanlega lægri framleiðni en í okkar samanburðarlöndum sem aftur rýrir samkeppnishæfni Íslands á ýmsum sviðum. Samkvæmt Íslandsskýrslu alþjóðlega ráðgjafafyrirtækisins McKinsey árið 2012 er framleiðni hér á landi um tuttugu prósentustigum lægri en í nágrannalöndum okkar. Þegar Viðskiptaráð uppfærði útreikningana árið 2016 kom í ljós óbreytt niðurstaða. Starfskraftur á Íslandi framleiðir sem sagt tuttugu prósentustigum minna á hverri klukkustund að meðaltali en starfsbróðir hans í Noregi, Svíþjóð eða Danmörku. Hvernig bregst atvinnulífið svo við þessu ástandi? Jú, það kallar á lengri vinnudaga og fleira fólk. Ef eina verkfæri manns er hamar þá eru allar hindranirnar nagli.

Hvað hefur þetta allt að gera með leikskólana? Jú, þessi aukna viðvera fullorðins fólks kallar á stóraukinn „geymslutíma“ barna. Leikskólarnir eru ekki lengur stofnun þroska og lærdóms heldur opinber barnapössun og þjónusta við atvinnulífið. Viðhorf sem Samtök Atvinnulífsins hafa ítrekað viðrað og viðhorf sem sýnir sig leynt og ljóst í launum og aðbúnaði leikskólakennara sem og þeirri staðreynd að leikskólakerfið er fyrir löngu komið að þolmörkum. Þessu verður að breyta! Ef ekki fyrir okkur sjálf þá fyrir börnin okkar. Björt framtíð vill beita sér fyrir marghliða alsherjarátaki með það fyrir augum að sem flestir geti unnið við það sem þeir gera best, með góðum afköstum á fjölskylduvænum vinnutíma. Svo í stað þess að breyta leikskólum landsins í einhverskonar dvalarheimili aldraðra hvar amma og afi geta dregið fram lífið með barnapössun; í stað þess að draga úr vægi frummenntunar barna; í stað þess að geyma börnin meira og lengur svo mamma og pabbi geti unnið meira og lengur og plástrað þannig höfuð íslensks atvinnulífs svo því megi áfram berja við steininn... ráðast þá að rót vandans.

Gerum skólakerfið aðlaðandi vinnustað í augum komandi kynslóða og gerum atvinnulífið almennt mannúðlegra og fjölskylduvænna með styttri vinnuviku og sveigjanlegri vinnutíma. Drögum það inn í 21. öldina líkt og gert hefur verið í okkar nágrannalöndum og sláum þannig tvær flugur í einu höggi: Bætum umhverfi leikskóla og aukum framleiðni sem aftur bætir afkomu og samkeppnisstöðu Íslands. Fjölskyldu- og barnvænni framtíð er Björt framtíð.

Höfundur er pabbi, viðskiptafræðingur og á lista Bjartrar framtíðar í Reykjavíkurkjördæmi Norður




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×