Viðskipti innlent

Aukin fjárfesting erlenda sjóða í ríkisskuldabréfum

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Það sem af er ári nemur bindiskylt fjármagnsinnflæði rúmlega 26 milljörðum króna.
Það sem af er ári nemur bindiskylt fjármagnsinnflæði rúmlega 26 milljörðum króna. vísir/daníel
Innflæði fjármagns vegna nýfjárfestinga erlendra aðila í ríkisskuldabréfum nam 8,5 milljörðum króna á þriðja fjórðungi ársins. Til samanburðar var innflæðið 7 milljarðar á öðrum ársfjórðungi. Þetta kemur fram í tölum sem birtust í nýrri fjármálastöðugleikaskýrslu Seðlabanka Íslands í síðustu viku.

Eins og kunnugt er hófst fjármagnsinnflæði í ríkisskuldabréf, vegna fjárfestinga erlendra aðila, á nýjan leik í apríl síðastliðnum eftir að það stöðvaðist alfarið þegar Seðlabankinn virkjaði sérstakt fjárstreymistæki í júní 2016. Var þá kveðið á um að 40 prósent af innflæði fjármagns vegna fjárfestinga í skuldabréfum þyrfti að binda í eitt ár á núll prósent vöxtum.

Í skýrslu Seðlabankans er tekið fram að umrædd bindiskylda dragi úr ávöxtun fjárfestinga og að áhrif hennar séu meiri eftir því sem fjárfest er til skemmri tíma. Hún dragi þannig úr hvata til spákaupmennsku til skamms tíma.

Segir Seðlabankinn að fjárfesting í ríkisskuldabréfum fyrir nýtt innstreymi erlends gjaldeyris, þrátt fyrir sérstöku bindiskylduna, kunni að benda til þess að um langtímafjárfesta sé að ræða. Það sem af er ári nemur bindiskylt fjármagnsinnflæði rúmlega 26 milljörðum króna, að sögn Seðlabankans, og eru um 40 prósent af þeirri fjárhæð bundin til eins árs á sérstökum fjárstreymisreikningum.

Í skýrslu Seðlabankans er auk þess bent á að undanfarna mánuði hafi hrein erlend nýfjárfesting að mestu leyti farið í skráð hlutabréf og sé ekki háð sérstöku bindiskyldunni. Í tölum bankans kemur fram að innflæði í skráð hlutabréf hafi numið 8 milljörðum króna á þriðja fjórðungi ársins borið saman við 10,3 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi.

Greinin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×