Handbolti

Arnar fer hvergi og heldur áfram að þjálfa Fjölni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arnar Gunnar heldur áfram með Grafarvogsstrákana.
Arnar Gunnar heldur áfram með Grafarvogsstrákana. vísir/eyþór
Arnar Gunnarsson, sem var rekinn frá Olís-deildarliði Fjölnis í gær, fer ekki neitt og verður áfram þjálfari liðsins, samkvæmt heimildum Vísis.

Aðalsteinn Snorrason, formaður handknattleiksdeildar Fjölnis, sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem fram kom að Arnar væri hættur störfum en síðar kom í ljós að Aðalsteinn rak án þess að spyrja hvorki kóng né prest.

Jarþrúður Hanna Jóhannsdóttir, stjórnarmaður í handknattleiksdeild Fjölnis og meðlimur í meistaraflokksráði, sagði á Facebook-síðu sinni í gær að Aðalsteinn hefði tekið þessa ákvörðun án þess að ræða við stjórnina.

Hún furðaði sig á vinnubrögðum formannsins sem hefur nú þurft að láta undan, samkvæmt heimildum Vísis, en Arnar hefur gert frábæra hluti með ungt lið Fjölnis og kom því í fyrsta sinn upp í Olís-deildina síðastliðið vor.

Æfing Fjölnisliðsins var blásin af í gær vegna málsins þar sem óvíst var hvort Arnar væri þjálfari þess eða ekki en væntanlega mætir hópurinn aftur til æfinga í dag.

Fjölnir á ekki leik fyrr en annan sunnudag þar sem nú stendur yfir landsleikjafrí. Liðið hefur ekki farið vel af stað í Olís-deildinni, en það er aðeins með tvö stig eftir sjö leiki og á enn eftir að vinna leik.

Ekki náðist í Aðalstein í gær þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×