Enski boltinn

Segir að Gylfi sé lykillinn að upprisu Everton

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson gæti fengið meira pláss um helgina.
Gylfi Þór Sigurðsson gæti fengið meira pláss um helgina. Vísir/Getty
Enski blaðamaðurinn Joe Fish skrifar stuttan pistil um Everton á vefsíðuna Here in the City þar sem hann segir að Gylfi Þór Sigurðsson sé lykilmaðurinn ætli liðið sér að komast upp úr holunni sem það er búið að grafa sér.

Fish er bjartsýnn fyrir hönd Everton eftir að Ronald Koeman var látinn fara og David Unsworth tók við sem bráðabirgðastjóri. Unsworth tapaði fyrsta leiknum sínum gegn Chelsea í deildabikarnum í vikunni en það voru batamerki á liðinu.

„Liðsval Unsworth sýndi um leið hvað Koeman var að gera rangt. Hann var fljótur að setja Kevin Mirallas og Aaron Lennon, sem eru ekki búnir að byrja einn einasta leik í úrvalsdeildinni, í liðið,“ segir Fish.

Með þessu kom meiri hraði og vídd inn í Everton-liðið en það hefur einmitt verið harðlega gagnrýnt fyrir að vera hægt og að spila ansi þröngt. Þá hefur Gylfi Þór Sigurðsson verið geymdur úti á kanti en það ætti að breytast um helgina á móti Leicester.

„Ef Unsworth heldur sig við vængmennina á sunnudaginn ætti það að hjálpa til við að fá það besta út úr Gylfa Sigurðssyni,“ skrifar Fish.

„Maðurinn sem var keyptur í sumar var ónotaður varamaður á móti Chelsea en líklega var bara verið að hvíla hann. Hann mun njóta þess að fá að spila aftur í holunni nú þegar Unsworth er byrjaður að nota kantmenn.“

„Gylfi er lykilinn að upprisu Everton en það getur teygt aðeins á vellinum fyrir hann að spila með Lennon og Mirallas með sér. Það ætti að búa til plásssið sem Gylfi þar til að spila jafnvel og í fyrra þegar að hann skoraði níu mörk og gaf þrettán stoðsendingar fyrir Swansea,“ segir Joe Fish.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×