Enski boltinn

Gamall þjálfari Skagamanna í úrvalsliði Le Tissier

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ivan Golac, til vinstri, lék með Southampton frá 1978 til 1983 og aftur frá 1984 til 1986.
Ivan Golac, til vinstri, lék með Southampton frá 1978 til 1983 og aftur frá 1984 til 1986. Vísir/Getty
Matt Le Tissier er líklega einn allra besti leikmaður sem hefur spilað fyrir enska félagið Southampton. Hann hefur nú valið besta ellefu manna úrvalslið í sögu Southampton.

Le Tissier hélt tryggð við félagið alla tíð og lék með því frá 1986 til 2002. Hann varð á þeim tíma fyrsti miðjumaðurinn til að skora hundrað mörk í ensku úrvalsdeildinni.

Stuðningsmenn Southampton kölluðu hann „Le God" en hann skoraði 161 mark í 443 leikjum með félaginu.

Eitt besta tímabilið hans var 1993 til 1994 þegar hann skoraði 25 mörk í 38 leikjum en tímabilið eftir var hann með 19 mörk í 41 leik og var valinn í úrvalslið ensku deildarinnar.

Athygli vekur að  Matt Le Tissier er ekki með sjálfan sig í liðinu sem má sjá hér fyrir neðan.



Hægri bakvörðurinn í úrvalsliði Matt Le Tissier er Júgóslavinn Ivan Golac en sá kappi er með Íslandstengingu.

Ivan Golac tók nefnilega við liði Skagamanna af Guðjóni Þórðarsyni fyrir 1997 tímabilið. ÍA var þá tvöfaldur meistari frá 1996 og hafði unnið Íslandsmeistaratitilinn fimm ár í röð.

Viðtalið við Ivan Golac eftir fyrsta leikinn sem þjálfari ÍA sumarið 1997.Mynd/DV frá 20.maí 1997
Eftir 3-1 tap á móti ÍBV í fyrsta leik hafði Ivan Golac engar áhyggjur því Skagaliðið myndi bara vinna hina sautján leikina.

Það fór nú ekki þannig og Ivan Golac var rekinn 18. júlí en þá var Skagaliðið dottið út úr bikarnum og búið að tapa 4 af fyrstu 11 leikjum sínum á Íslandsmótinu. Logi Ólafsson tók við starfi hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×