Viðskipti innlent

Stöðva rekstur bensínstöðvar á Hvammstanga

Sveinn Arnarsson skrifar
N1 hefur tvær vikur að skila áætlun um úrbætur.
N1 hefur tvær vikur að skila áætlun um úrbætur. Vísir/jón sigurður
Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra íhugar að loka bensínstöð N1 á Hvammstanga frá og með 1. febrúar næstkomandi þar sem bensínstöðin starfar ekki í samræmi við reglugerð. Ófullnægjandi afgreiðsluplan og skortur á mengunarvarnarbúnaði veldur því að heilbrigðiseftirlitið fer í þessar aðgerðir.

Í bréfi heilbrigðiseftirlitsins til forsvarsmanna N1 segir að umrædd bensínstöð hafi hafið rekstur án starfsleyfis og hafi því eftirlitið fyrst stöðvað starfsemina í apríl 2015. Í framhaldi af þeirri stöðvun sótti N1 um starfsleyfi og gaf heilbrigðiseftirliti loforð um að gengið yrði frá málum í samræmi við þágildandi reglugerð.

Sigurjón Þórðarson, heilbrigðisfulltrúi.
„N1 hefur ekki enn staðið við að framkvæma fullnægjandi úrbætur, þannig að hvorki er fullnægjandi afgreiðsluplan né olíuskilja tengd stöðinni,“ segir í bréfinu. Vantar því tilskilinn mengunarvarnabúnað á stöðina.

N1 sendi eftirlitinu bréf dagsett 2. október og óskaði eftir því að fá að halda áfram rekstri til loka júní á næsta ári án þess að uppfylla skilyrði um mengunarvarnir. Hafnaði heilbrigðiseftirlitið þeirri umleitan.

Verði ekkert að gert mun því bensínstöðinni verða lokað í febrúar.

Sigurjón Þórðarson, heilbrigðisfulltrúi Norðurlands vestra, segir fyrirtækið hafa tækifæri til 15. nóvember til að skila andmælum og koma með tímasettar áætlanir um úrbætur. „Þetta hefur staðið í nokkurn tíma og því tökum við til þessa ráðs að loka stöðinni ef hún uppfyllir ekki þær reglugerðir sem settar eru um starfsemi sem þessa,“ segir Sigurjón.

Ásdís Björg Jónsdóttir, gæðastjóri N1, segir að bréfið hafi nýlega borist til fyrirtækisins og því hafi ekki gefist ráðrúm til að funda um málið. Það verði gert á næstu dögum. Að öðru leyti vildi hún ekki tjá sig um málið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×