Handbolti

Orri Freyr fór í aðgerð og spilar ekki meira á þessu ári

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Orri Freyr Gíslason er lykilmaður hjá Val.
Orri Freyr Gíslason er lykilmaður hjá Val. vísir/eyþór
Orri Freyr Gíslason, línu- og varnarmaður Íslands- og bikarmeistara Vals í Olís-deild karla í handbolta, fór í aðgerð á þumalfingri á laugardaginn og spilar ekki meira á þessu ári. Þetta er mikið áfall fyrir Valsliðið enda Orri einn albesti varnarmaður deildarinnar og lykilmaður hjá Val.

„Ég hitti lækni á fimmtudaginn og hann sagði mér að liðbandið í þumlinum væri orðið svo skaddað að ég fór beint í aðgerð. Hann skar þetta upp og saumaði liðbandið,“ segir Orri Freyr við Vísi. Hann verður í gifsi í sex vikur og svo kemur í ljós hvað gerist eftir þann tíma.

„Ég er búinn fram að áramótum. Nú fer ég bara inn í persónulegt þriggja mánaða undirbúningstímabil. Lífið leikur alveg við mig,“ segir Orri Freyr léttur.

Línumaðurinn grjótharði meiddist í Evrópuleikjunum gegn Ungverjunum fyrir nokkrum vikum og hefur verið að spila meiddur fyrir Valsliðið sem tapaði sínum fyrsta leik um síðustu helgi þegar að það steinlá gegn FH. Orri var besti maður Vals og skoraði fimm mörk úr fimm skotum.

„Ég er búinn að vera að væla og væla en enginn trúði mér. Ég vældi svo mikið að ég fékk að hitta þennan sérfræðing sem sendi mig beint í aðgerð. Það var gott að fá staðfestingu á þessu þannig ég var nú ekki bara að væla eitthvað. Það er leiðinlegt að væla,“ segir Orri Freyr Gíslason.

Valur er í öðru sæti Olís-deildarinnar með ellefu stig, stigi á eftir FH sem á leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×