Skoðun

Nýjar áskoranir fylgja atvinnulífi framtíðarinnar

Ein stærsta áskorunin sem við sem samfélag stöndum frammi fyrir eru breytingarnar sem ör tækniþróun hefur í för með sér, sem stundum er vísað í sem fjórðu iðnbyltinguna. Hraði tækninýjunganna er slíkur að meirihluti þeirra starfa sem börnin okkar eiga eftir að sinna eru ekki enn orðin til. Öflug tölvutækni og gervigreind munu á næstu tuttugu árum sjálfvirknivæða allt að helming starfanna sem mannkynið vinnur í dag. Við getum valið hvernig við tökumst á við þessa áskorun. Annar kosturinn er að stinga höfðinu í sandinn og gera ekki neitt, með tilheyrandi atvinnuleysi og hnignun lífskjara. Hinn kosturinn er að nýta tækifærið sem felst í þessum breytingum með því að skapa atvinnustefnu fyrir Ísland til framtíðar, byggja upp öflugan þekkingariðnað og virkja til þess þann sköpunarkraft sem við eigum nú þegar í vísindastarfi og háskólum landsins.

Við eigum öflugar stoðir í sjávarútvegi, ferðaþjónustu og orkuiðnaði, burðaratvinnugreinum sem allar byggja að meira eða minna leyti á nýtingu sameiginlegra náttúruauðlinda Íslendinga. Þessar atvinnugreinar geta hins vegar ekki vaxið með aukinni nýtingu auðlindanna. Við verðum að skjóta fleiri og fjölbreyttari stoðum undir atvinnulífið.

Öflugt atvinnulíf og sterkir háskólar eru tvær hliðar á sama peningnum. Sú nýsköpun sem byggir á rannsóknum háskólanna eru einn helsti hvati hagvaxtar og betri lífskjara. Þekkingarfyrirtækin sem eru burðarásar í atvinnulífi okkar í dag byrjuðu sem hugmyndir rannsakenda í háskólum landsins, til að mynda Marel en grunnur þess var lagður í Raunvísindastofnun Háskóla Íslands, þar sem vísindamenn og frumkvöðlar þróuðu fyrstu rafeindavogina.

Skýrslur OECD sýna að íslenskir háskólar eru verulega undirfjármagnaðir og fá helmingi lægra framlag á hvern nemanda en háskólar á Norðurlöndum. Þrátt fyrir að skýrt sé sagt í stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs, sem vinnur undir stjórn menntamálaráðherra, að framlag á hvern háskólanema verði sambærilegt við Norðurlöndin árið 2020, þá er ekkert í fjármálaáætlun fráfarandi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sem bendir til þess að breyta eigi fjármögnun háskóla á Íslandi. Í ályktun rektora háskólanna vegna fjármálaáætlunar, frá 6. maí 2016, segir „Menntun er lykill að velsæld þjóða og rannsóknir eru drifkraftur framfara. Þess vegna er núverandi tillaga að fimm ára fjármálaáætlun ekki einungis vonbrigði heldur mun hún, verði hún samþykkt óbreytt, hafa verulega neikvæð áhrif á háskólanám, vísindastarf, framþróun í atvinnusköpun og samkeppnisstöðu Íslands til framtíðar.“ 

Samfylkingin vill mæta áskorunum framtíðarinnar með stórsókn í menntamálum. Það gerum við með því að efla háskóla- og vísindastarf á Íslandi. Á sama tíma er nauðsynlegt að tryggja að allir geti menntað sig óháð fjárhagsstöðu og standa þar vörð um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Aðgerðaáætlun okkar miðar að því að fjármögnun á starfsemi háskólanna nái OECD meðaltali á næstu árum, og að meðaltali fjármögnunar háskóla á Norðurlöndunum verði náð þegar til lengri tíma er litið. Vel fjármagnaðir háskólar og öflug þekkingarfyrirtæki munu ekki einungis gera okkur kleift að takast á við risastórar áskoranir fjórðu iðnbyltingarinnar heldur um leið virkja sköpunarkraftinn og skapa atvinnulíf framtíðarinnar, þannig aukum við samkeppnishæfni landsins, knýjum hagvöxt og síðast en ekki síst, búum til gott samfélag þar sem ungt fólk vill búa.

Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir

Höfundur situr í 2. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík suður




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×