Skoðun

Faxaflóahafnir og lögmál frumskógarins

Ragnheiður Þorgrímsdóttir skrifar
Sameignarfélagið Faxaflóahafnir, sem er að mestu í eigu Reykja­víkur­borgar, hefur nánast hneppt Hvalfjörð í fjötra með eignarhaldi sínu á Grundartanga þar sem hvert mengandi iðjuverið á fætur öðru hefur risið, fyrir tilstilli Faxaflóahafna. Eitt þeirra, GMR, hefur lagt upp laupana við lítinn glæsibrag. Sérkennilegt er að Reykjavík þurfi að fara í annað sveitarfélag með óhreinan iðnað. Borgin sem fékk náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2014 hefur falið andlit sitt að þessu leyti bak við Faxaflóahafnir.

Mengun frá iðjuverunum á Grundar­tanga hefur haft verulega neikvæð áhrif á lífríkið, búskap, heilsu dýra, ferðaþjónustu, útivist og lífsgæði íbúa við allan Hvalfjörð, sem er ekki lengur hreint svæði. Mengandi efni í andrúmslofti, vatni, gróðri og lífverum eru í boði Faxaflóahafna. Þau sveitarfélög sem einnig eiga hlut í Faxaflóahöfnum virðast til í hvað sem er, séu peningar í boði. Þá er ekki verið að velta fyrir sér „smámunum“ svo sem mati á umhverfisáhrifum eða rækilegri úttekt á afleiðingum mengunarinnar. Menn virðast tilbúnir til að trúa hverju sem er og skýla sér á bak við innlendar eftirlitsstofnanir sem hafa sýnt að þær láta hvorki náttúruna njóta vafans né leggjast í rannsóknir sem staðfest geti að hið mikla umburðarlyndi þeirra gagnvart mengandi iðjuverum sé réttlætanlegt.

Nítjándi september síðastliðinn markaði tímamót varðandi stóriðju hérlendis, en þann dag féll Silicor Materials formlega frá samningum við Faxaflóahafnir um aðstöðu fyrir iðjuver sitt á Grundartanga. Áður hafði Silicor Materials, sem dregur sögulegan slóða vanefnda á eftir sér, haldið Faxaflóahöfnum volgum í nokkur ár með því að veifa hundruðum atvinnutækifæra framan í viðsemjendur sína á Íslandi.

Ekki er ljóst á hvaða róli vísindasamfélagið var meðan á þessu stóð. Vitað var að um tilraun í framleiðslu sólarkísils var að ræða. Engir aðrir en Silicor Materials sjálft og fulltrúar þess á Íslandi gáfu upplýsingar um framleiðsluferilinn. Engin til þess bær, hlutlaus erlend stofnun virðist hafa verið fengin til að meta möguleika Silicor Materials til að standa undir væntingum, hvorki hvað varðaði framleiðsluna, fjármögnun né orkukaup. Silicor Materials átti sviðið.

Almenningur ber kostnaðinn

Eðli málsins samkvæmt mun almenningur bera kostnað vegna undirbúnings fyrir Silicor Materials á Grundartanga sem og vegna undirbúnings fyrir væntanlega fólksfjölgun vegna iðjuversins í nálægu þéttbýli. Það er ástæða til að óttast að sameignarfélagið Faxaflóahafnir, sem hefur verið blint á að í firðinum býr fólk sem á rétt á hreinu umhverfi eins og aðrir borgarar þessa lands, reyni að krækja í enn eitt mengandi iðjuverið til handa Hvalfirði. Lögmál frumskógarins, þar sem sá sterkari étur þann vanmáttugri, gæti enn um sinn orðið leiðarljós Faxaflóahafna, þrátt fyrir að sameignarfélagið hafi þurft að lúta í gras eftir samskipti sín við Silicor Materials.

Saga Silicor Materials á Íslandi hefði getað orðið lengri og með meira tjóni en orðið er. Gott er að þessu máli er lokið. En vert er að minnast þess að Faxaflóahafnir lögðust gegn því að Silicor þyrfti að sæta mati á umhverfis­áhrifum. Svo mikil var trúgirnin og flumbrugangurinn. Eftir er að sjá hvort Faxaflóahafnir muni læra af reynslunni og verða umhverfisvænni framvegis. Félagið þyrfti að einbeita sér að því í alvöru að koma böndum á mengun frá Elkem, Norðuráli og Kratusi sem leigja land Faxaflóahafna á Grundartanga, sem og mengun frá gríðarlegri umferð flutningaskipa um Hvalfjörð. Það myndi bæta ásýnd Reykjavíkurborgar og annarra eigenda Faxaflóahafna.

 

Ragnheiður Þorgrímsdóttir, Kúludalsá, ­Hvalfirði.




Skoðun

Sjá meira


×