Innlent

Dæmdur í þriggja mánaða gæsluvarðhald vegna kókaínsmygls

Birgir Olgeirsson skrifar
Maðurinn var dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness í júlí síðastliðnum.
Maðurinn var dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness í júlí síðastliðnum. Vísir/Eyþór
Karlmaður sem dæmdur var í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir kókaínsmygl í júlí síðastliðnum skal sæta gæsluvarðhaldi til 31. janúar samkvæmt dómi Hæstaréttar.

Samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjaness var maðurinn, sem er erlendur ríkisborgari, fundinn sekur um að hafa staðið að innflutningi á samtals 1.950 millílítra af kókaíni, sem hafði 69 prósenta styrkleika, ætluðum til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni.

Á maðurinn að hafa flutt fíkniefnin sem farþegi með áætlunarflugi frá Amsterdam í Hollandi til Keflavíkurflugvallar 22. mars síðastliðinn. Tollverðir fundu efnið í fjórum snyrtivörubrúsum í farangri mannsins við komu hans til landsins.

Maðurinn hefur áfrýjað dómnum til Hæstaréttar en samkvæmt greinargerð sem fylgdi gæsluvarðhaldskröfunni hefur hann engin tengsl við Ísland og komið hingað í þeim eina tilgangi að flytja inn fíkniefni.

Taldi ákæruvaldið mikla hættu á að hann reyni að koma sér undan frekari meðferð málsins gegn honum og fullnustu refsingar ef hann gengur laus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×