Handbolti

Formaður FH: „Maður er í hálfgerðu áfalli“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson og strákarnir í FH þurfa að fara aftur til Rússlands.
Gísli Þorgeir Kristjánsson og strákarnir í FH þurfa að fara aftur til Rússlands. vísir/eyþór
Eins og kom fram í morgun þarf FH að ferðast aftur til St. Pétursborgar til þess eins að framkvæma vítakastkeppni sem ekki var haldin í seinni leik FH og rússneska liðsins í 2. umferð EHF-bikarsins í handbolta.

Jafnt var eftir venjulegan leiktíma og var þá gripið til framlengingar en eftir hana komst FH áfram með eins marks heildarsigri, 65-64. Finnski eftirlitsmaðurinn gerði aftur á móti stór mistök með því að senda ekki leikinn beint í vítakastkeppni.

Dómur er fallinn í málinu og hefur verið ákveðið að úrslitin standa ekki heldur þurfa liðin að mætast í vítakastkeppni um hvort þeirra fer áfram í 3. umferðina.

„Ég var bara að fá þessi tíðindi og maður er í hálfgerðu áfalli eins og gefur að skilja,“ segir Ásgeir Jónsson, formaður handknattleiksdeildar FH, í samtali við Vísi.

Ásgeiri var augljóslega brugðið við þessi tíðindi en hann bjóst ekki við þessum úrskurði frá EHF.

„Maður vildi ekki gefa sér neitt fyrir fram eftir að Rússarnir kærðu. Við skiluðum bara okkar áliti og svo bjóst maður við að það yrði dæmt eðlilega,“ segir Ásgeir, en er það huggun harmi gegn að EHF mun borga brúsann eftir þetta klúður?

„Nei, það skiptir engu máli. Maður er bara í áfalli,“ segir Ásgeir.

Ásgeir segir FH-inga ætla að senda frá sér yfirlýsingu seinna í dag en þeir hafa til morguns til að áfrýja þessum úrskurði evrópska handknattleikssambandsins.


Tengdar fréttir

Mótherjar FH búnir að kæra leikinn

St. Petursburg hefur kært framkvæmd leiks liðsins gegn FH í 2. umferð EHF-bikarsins í gær til evrópska handknattleikssambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×