Körfubolti

Braut þjálfari Skallagríms reglur eftir að hann var rekinn út út húsi í gær? | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þjálfari kvennaliðs Skallagríms hélt áfram að koma skilaboðum til síns liðs þrátt fyrir að dómarar leiksins væru búinn að reka hann út úr húsi.

Ricardo Gonzalez, þjálfari kvennaliðs Skallagríms, byrjaði ekki þjálfaraferill sinn á Íslandi vel en hann var rekinn út úr húsi í fyrsta leik sínum í Keflavík í gær.

Ricardo Gonzalez stýrði þá Skallagrímsliðinu á móti Keflavík í Meistarakeppni KKÍ.

Skallagrímskonur steinlágu með tuttugu stigum í leiknum, 93-73, en Íslands- og bikarmeistarar Keflavíkur höfðu mikla yfirburði í leiknum.

Ricardo Gonzalez var ekki ánægður með dómara leiksins í upphafi seinni hálfleiks og fékk þá tvær tæknivillur í röð og var rekinn út úr húsi. Staðan var þá 53-34 fyrir Keflavíkurliðið.

Það tók dómara leiksins dágóðan tíma að fá Ricardo Gonzalez til að yfirgefa salinn en hann fékk síðan eiginkonu sína, Lidiu Mirchandani, til að klára leikinn fyrir sig.

Myndatökumaður Stöð 2 Sport, náði því hinsvegar á mynd þegar Ricardo Gonzalez var að koma skilaboðum til sinna leikmanna þrátt fyrir að hafa verið bannað af dómurum leiksins að hafa frekari afskipti af leiknum.

Ricardo Gonzalez sást bæði gefa konu sinni merki út um dyrnar í salinn en einnig fór Carmen Tyson-Thomas til hans milli þriðja og fjórða leikhluta og fékk ráð frá þjálfara sínum.

Þetta sést vel í myndbandinu í spilaranum hér fyrir ofan.

Ricardo Gonzalez er líklega á leiðinni í bann fyrir brottreksturinn en nú er spurning hvort að hann hafi brotið fleiri reglur með því að halda áfram að hafa afskipti af leiknum.

Ricardo GonzalezMynd/Stöð 2 Sport



Fleiri fréttir

Sjá meira


×