Innlent

„Þetta er svo dásamlega gaman“

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Sjötugur hjólagarpur hefur nú hjólað samanlagt yfir þúsund kílómetra með heimilisfólk á öldrunarheimilinu Sunnuhlíð. Þangað kemur hann þrisvar í viku og býður eldri borgurum upp á hjólatúra í sérstökum hjólavagni við góðar undirtektir.

Svanur Þorsteinsson er sjötugur í dag og fékk hátíðlegar móttökur þegar hann kíkti í heimsókn á öldrunarheimilið Sunnuhlíð í morgun.

„Hann passar að þeim verði ekki kalt og dúar að þeim alveg. Pakkar þeim inn. Svo koma þau meira að segja og panta að fara í hjólreiðatúr í rigningu hjá honum því það er bara svo gott að komast út að fá vindinn í vangann og rigninguna í kinnarnar. Að fá svona sjálfboðaliða eins og Svan, þetta er bara ómetanlegt get ég sagt ykkur,“ segir Þórdís Guðnadóttir iðjuþjálfi í Sunnuhlíð.

Svanur hefur hjólað mikið síðustu áratugina en hugmyndin um hjólatúrana kviknaði eftir að hann fór á námskeið hjá samtökunum Hjólað óháð aldri. Hann er hjólagarpur af lífi og sál en þegar við hittum hann í morgun hafði hann þegar hjólað sjötíu kílómetra þann daginn.

„Það getur verið erfitt að fá fólk í fyrstu ferðina, en ef að það næst þá eru allir vegir færir,“ segir Svanur.

„Þetta er svo dásamlega gaman að gera þetta. Og svo er stóri plúsinn - það er ekki hægt að skattleggja kaupið mitt fyrir þetta og ekki hægt að taka það af mér. Þetta er svo tilvalið fyrir eldri borgara. Það er svo lítið mál að koma hérna, fara á námskeið og fá réttindi til að hjóla og fara svo að hjóla með fólk.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×